HB Grandi birti uppgjör þriðja ársfjórðungs rétt í þessu en þar kemur fram að töluverð tekjuaukning hafi verið í rekstri fyrirtæksins. Þá voru rekstrartekjur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi 68,3 milljónir evra samanborið við 50,7 milljónir á sama tíma í fyrra. Hagnaður var 20 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi árið 2013 samanborið við 9,7 milljónir í fyrra.

155,6 milljóna rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 námu 155,6 milljónum evra, samanborið við 150 milljónir árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 45,0 milljónir evra eða 28,9% af rekstrartekjum, en var 39 milljónir eða 26% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 0,9 milljónir, en voru jákvæð um 2,2 milljónir evra á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 3,7 milljónir evra, en voru neikvæð um 0,4 milljónir árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 38,8 milljónir evra og hagnaður tímabilsins var 30,6 milljónir evra á móti 25,9 milljónir fyrstu níu mánuði ársins 2013.

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánaða ársins 2014 (1 evra = 154,8 kr) verða tekjur 24,1 milljarðar króna, EBITDA 7,0 milljarðar og hagnaður 4,7 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2014 (1 evra = 152,3 kr) verða eignir samtals 59,5 milljarðar króna, skuldir 26,6 milljarðar og eigið fé 32,8 milljarðar.