*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 21. september 2019 12:01

Hagnaður heildsala jókst um þriðjung

Hagnaður þriggja af stærstu heildsölum landsins jókst á síðasta ári á meðan afkoma þeirrar stærstu versnaði um rúmar 200 milljónir

Ástgeir Ólafsson
Tekjur heildsalanna fjögurra námu um 34,1 milljarði á síðasta ári

Fjórar af stærstu heildsölum landsins með matog dagvöru, ÍSAM, Innnes, 1912 og Garri, högnuðust um samtals 187 milljónir króna á síðasta ári sem er 48 milljóna aukning frá fyrra ári. Þrjár heildsölur af fjórum skiluðu bæði hagnaði og betri afkomu milli ára á meðan ein þeirra skilaði tapi og verri afkomu milli ára. Áhrif af komu Costco hafa að einhverju leyti komið til baka en 2017, árið sem bandaríski risinn hóf starfsemi sína, dróst afkoma félaganna fjögurra saman um ríflega 1,2 milljarða.

Íslensk ameríska (ÍSAM) skilaði 506 milljóna króna tapi á síðasta ári og jókst tap félagsins um 205 milljónir á milli ára en afkoma félagsins hefur versnað um 768 milljónir króna frá árinu 2016. Innnes skilaði 327 milljóna króna hagnaði og jókst um 150% á milli ára sem skýrist að hluta til af því af endurgreiðslu tollkvóta og eftirlitsgjalda ásamt dráttarvöxtum upp á 178 milljónir á síðasta ári en sami liður nam 31 milljón árið áður. 1912 ehf., sem rekur heildsölurnar Nathan & Olsen og Ekruna, hagnaðist um 250 milljónir króna en hagnaður félagsins jókst um 15% á milli ára. Þá nam hagnaður Garra 118 milljónum króna og jókst um 24 milljónir á milli ára.

Veltan jókst um 2 milljarða

Heildartekjur félaganna fjögurra námu samtals 34,1 milljarði króna á síðasta ári og jukust um 2,1 milljarð á milli ára. Vörusala þeirra nam samtals 33,5 milljörðum og jókst um 6% á meðan framlegð af vörusölu nam 12,6 milljörðum og jókst um 7% milli ára. Tekjur og vörusala ÍSAM námu samtals tæplega 12,6 milljörðum króna og jukust um 5% milli ára. Framlegð af vörusölu nam 6.055 milljónum og jókst um 4% milli ára en framlegðarhlutfall félagsins, sem er framlegð sem hlutfall af vörusölu, lækkaði um 0,6 prósentustig á milli ára og nam 48,1%. Heildartekjur Innnes námu tæplega 9,3 milljörðum króna á árinu og jukust um 3% milli ára en vörusala nam um 8,7 milljörðum og jókst um 1%. Framlegð af vörusölu nam 2.962 milljónum hjá Innnes og jókst um 11% milli ára auk þess sem framlegðarhlutfall hækkaði um 3,2 prósentustig og var 34% á síðasta ári.

Tekjur og vörusala 1912 námu rúmlega 8 milljörðum króna og jukust um 14% milli ára en framlegð af vörusölu var 2.145 milljónir og jókst um 3% milli ára á meðan framlegðarhlutfall var 26,7% og lækkaði um 2,8 prósentustig á milli ára. Þá námu tekjur og vörusala Garra rúmlega 4,2 milljörðum króna og jukust um 7%. Framlegð félagsins nam 1.468 milljónum króna auk þess sem framlegðarhlutfall var 34,8% og hækkaði um 3,4 prósentustig á milli ára.

Framlegðarhlutfall félaganna fjögurra var samtals 37,7% og hækkaði um 0,3 prósentustig á milli ára en að meðaltali var hlutfallið 35,9% og hækkaði um 0,8 prósentustig. Hafa ber í huga að tekjur fyrirtækja í heildverslun koma ekki eingöngu til af innflutningi og heildsölu heldur einnig vegna framleiðslu og dreifingar í ákveðnum tilfellum. Sem dæmi eru framleiðslufyrirtækin Myllan, Ora, Frón og Kexsmiðjan innan samstæðu ÍSAM.

Launahlutfall lækkar hjá öllum nema ÍSAM

Launakostnaður félaganna fjögurra nam samtals rúmlega 7,3 milljörðum og jókst um 4,8% milli ára. Launahlutfall, sem í tilfelli félaganna er reiknað sem launakostnaður sem hlutfall af framlegð, var samtals 57,9% og lækkaði um 1,2 prósentustig en að meðaltali var hlutfallið 53% og lækkaði um 2,6 prósentustig. Heilsárstöðugildi voru samtals 794 og fjölgaði um 18 milli ára eða 2,3% en þess ber að geta að heilsársstöðugildi ÍSAM voru rúmlega helmingur þeirra.

Laun og launatengd gjöld námu tæplega 4 milljörðum króna hjá ÍSAM og jukust um 6,8% milli ára en launahlutfall var 65,7% og hækkaði um 1,8 prósentustig milli ára en heilsársstöðugildi voru 440 á árinu og fjölgaði um 17 milli ára. Greint var frá því á dögunum að félagið hefði sagt 14 starfsmönnum upp um síðustu mánaðamót. Voru uppsagnirnar, sem náðu þvert yfir starfsemi fyrirtækisins, sagðar liður í að snúa við taprekstri síðustu ára. Þá varð ÍSAM einnig fyrir töluverðri gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni í apríl síðastliðnum þegar fyrirtækið boðaði 1,9-3,9% verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækisins yrðu kjarasamningar sem skrifað var undir í byrjun apríl samþykktir.

Launakostnaður Innnes nam tæplega 1,8 milljörðum króna og hækkaði um 3,7% á meðan launahlutfall var 60,1% og lækkaði um 4,3 prósentustig auk þess sem heilsársstöðugildi voru 192 og fjölgaði um 6. Launakostnaður 1912 nam 936 milljónum og lækkaði um 2 milljónir milli ára. Launahlutfall félagsins var 43,6% og lækkaði um 1,5 prósentustig á meðan fjöldi stöðugilda var 99 og stóð í stað milli ára. Þá nam launakostnaður Garra 624 milljónum og jókst um 3,1% en launahlutfallið var 42,5% og lækkaði um 6,4 prósentustig á milli ára auk þess sem heilsársstöðugildum fækkaði um 5 og voru 63 á árinu.

Nánar er fjallað um stöðu og afkomu heildsala í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Innnes Garri Heildsölur ÍSAM 1912