Hagnaður leigufélagsins Heimstaden, áður Heimavellir, nam rétt rúmum milljarði króna á árinu 2020 og dróst saman um 24% milli ára. Leigutekjur félagsins lækkuðu um 8,1% og námu um 3,1 milljarði króna. EBIT hlutfall félagsins var 55,9% á árinu samanborið við 60,8% árið áður.

Eignir félagsins námu 53,7 milljónum króna í árslok en eigið fé félagsins nam  21,2 milljónum og skuldir 32,5 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 39,5% í árslok.

Uppstokkun á eignasafni

Umtalsverð endurskipulagning átti sér stað á eignasafni félagsins á árinu. Félagið seldi þannig 114 leiguíbúðir og tók við 79 nýjum íbúðum á Hlíðarenda á síðari hluta ársins. Heildarfjöldi leigueininga í árslok var 1602. Verðmæti fjárfestingaeigna félagsins nam 50,8 milljónum í árslok. Matsbreyting á árinu nam tæpum tveimur milljónum króna.

Í upphafi síðasta árs voru 91 íbúð á Hlíðarenda enn í byggingu en þær höfðu allar verið afhentar fyrir árslok og því voru engar fjárfestingaeignir í byggingu um áramót.

Nýting eigna minnkar í faraldri

Áætlað tap leigutekna vegna eigna sem ekki voru í útleigu árið 2020 nemur 361 milljón króna, sem er ríflega tvöföldun frá árinu áður þegar tapið var metið á 164,5 milljónir. Nýtingarhlutfall eigna var 89% á árinu, samanborið við 95,3% árið áður.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum kemur fram að óljóst sé hver áhrif faraldursins verða á rekstur og eignasafn félagsins til lengri og skemmri tíma. Helstu áhrif faraldursins á rekstur félagsins séu minni nýting á eignum.

Fredensborg ICE ehf. tilkynnti um yfirtökutilboð á útistandandi hlutum í Heimavöllum í apríl á síðasta ári. Þegar tilboðsfrestur rann út réði félagið yfir 99,45% hluta í félaginu. Félagið eignaðist loks alla hluti í félaginu um miðjan september sama ár. Heimavellir voru í kjölfarið skráðir af markaði og nafni félagsins breytt í Heimstaden ehf. Arnar Gauti Reynisson er framkvæmdastjóri Heimstaden.