Miði.is skilaði hagnaði upp á 13,7 milljónir króna á árinu 2012 sem er aukning frá fyrra ári þegar félagið skilaði 7 milljóna króna hagnaði. Eigið fé félagsins í árslok var 40,6 milljónir í árslok en eignir þess námu 178 milljónum og skuldir 137,7 milljónum.

Allt hlutafé félagsins var keypt af 365 miðlum á árinu frá félaginu Creatrix ApS. Þá hafði fyrirtækið verið í söluferli í um tvö ár. Kaupin voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í apríl á þessu ári en eftirlitið setti samrunanum nokkur skilyrði.

Meðal annars er kveðið á um að 365 miðlum og Miða.is er óheimilt að tvinna saman annars vegar sölu á birtingu auglýsinga og kynningarstarfsemi á vegum 365 miðla og hins vegar sölu á vörum eða þjónustu Miða.is.