Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hagnaðist um 6 milljónir króna árið 2013. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Heildartekjur félagsins námu 3.258 milljónum króna. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 164 milljónum króna en nam 101 milljón árið 2012.

Í Morgunblaðinu segir að þetta sé besta afkoma Árvakurs frá árinu 2002, ef frá er talið árið 2004 þegar hagnaður varð af sölu fasteignar og lóðar við Kringluna 1.

Fram kemur um uppgjör Árvakurs að fyrsta árið eftir að núverandi eigendur tóku við rekstrinum hafi verið rekstrarhalli upp á 500 milljónir króna. Um síðustu áramót nam eigið féð 980 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 47%. Heildareignir Árvakurs námu um 2,1 milljarði í lok árs.

„Hagnaðurinn er að vísu ekki mikill en engu að síður er grundvallarmunur á því að vera réttum megin við núllið,“ segir útgefandinn Óskar Magnússon í blaðinu.