Sænska fataverslanakeðjan Hennes & Mauritz (H&M) hagnaðist um 423 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi og jók við hagnaðinn um 36% frá sama tímabili í fyrra. BBC News greinir frá þessu.

Tímabilið nær frá desembermánuði til febrúarmánaðar og er jólasala fyrirtækisins því inni í tölunum. Í tilkynningu um uppgjörið sagði fyrirtækið að nýjum vörulínum hefði verið gífurlega vel tekið.

„Við byrjum árið 2015 virkilega vel - bæði hvað varðar sölu og hagnað,“ sagði Karl-Johan Persson, framkvæmdastjóri H&M, um uppgjörið.

H&M hyggst opna um 400 nýjar verslanir á yfirstandandi fjárhagsári fyrirtækisins.