Bílaframleiðandinn Honda tilkynnti í dag að hagnaður fyrirtækisins hefði aukist um 20 prósent á milli ársfjórðunga og var aukningin mun meiri en greiningaraðilar höfðu spáð. Góð sala í Bandaríkjunum og veiking japanska jensins áttu þátt í þessum bætta hagnaði.

Hagnaður Honda á öðrum ársfjórðungi var 186 milljarðar jena, sem samsvarar um 200 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra var hagnaðurinn 155,6 milljarðar jena.

Honda glímir enn við gríðarlegan kostnað vegna innkallana á milljónum bifreiða sem innihalda loftpúða frá framleiðandanum Takata. Frá árinu 2008 hefur Honda þurft að kalla inn meira en 20 milljónir bíla vegna öryggispúðanna, sem hafa valdið dauða átta manns.

Hins vegar hefur söluaukningin verið umtalsverð. Á heimsmarkaði jókst salan um 4,9 prósent en í Bandaríkjunum jókst hún um 11 prósent á fyrsta ársfjórðungi.