Hringdu fjórfaldar hagnaðinn Hagnaður Hringdu ríflega fjórfaldaðist á síðasta ári og nam 49,9 milljónum króna miðað við 11,4 milljóna króna hagnað árið 2015. Tekjur félagsins jukust um 27% milli ára. Rekstrarhagnaður nam 34,2 milljónum króna en rekstrartap var upp á 8,1 milljón króna árið 2015.

Játvarður Jökull Ingvarsson, framkvæmdastjóri Hringdu, segir að sala fyrirtækisins síð- asta árið hafi aukist um 54%. Farsímanotendum Hringdu hafi fjölgað úr um 1.500 í um 6.500 síðasta árið. „Við erum aðeins öðru vísi en hin félögin. Við kaupum allt í heildsölu af hinum fjarskiptafyrirtækjunum og erum því ekki með stóra fjárfestingu í grunnkerfum á borð við farsímasendum og af því leiðir að við getum boðið upp á ódýrari verð,“ segir Játvarður.

Stærsti hluthafi í Hringdu um áramótin var Dvorzak Ísland með 45% hlut. Félagið er í eigu Vivaldi invest, fjárfestingafélags Jóns von Tetzchner. Þá átti Skin ehf. 28,6% hlut, en Skin er í eigu Ólafs Jóhann Ólafssonar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .