Hagnaður HS Orku nam 75 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er verulegur viðsnúningur frá í fyrra þegar tap fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi nam 942 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri HS Orku að rekstrartekjur námu 1.899 milljónum á tímabilinu borið saman við 1.947 milljónir á sama tíma í fyrra. Hagnaður tímabilsins af reglulegri starfsemi nam 90 milljónum króna borið saman við 910 milljóna króna tap á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.

Þá nam rekstrarhagnaður fyrir skatta, afskriftir og aðra liði (EBTIDA) 828 milljónum króna á tímabilinu sem er 47 milljónum króna meira en í fyrra. Eiginfjárhlutfall var í lok fjórðungsins 58,0% og er óbreytt frá árslokum 2013.

Dregur úr gengishagnaði

Fram kemur í skýringum að reiknaðir fjármagnsliðir höfðu eins og oft áður afgerandi áhrif á afkomu HS Orku. Þar vegur þyngst breyting á virði afleiða (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) sem voru neikvæðar um 708 milljónir króna. Þær voru neikvæðar um 2.755 milljónir á sama tíma í fyrra. Á móti vegur 226 milljóna króna gengishagnaður í fyrra. Á sama tíma í fyrra nam gengishagnaðurinn 936 milljónum króna.

Þá segir um reksturinn að regluleg starfsemi HS Orku gangi vel. Megin ástæðan fyrir því að tekjur hafi lækkað á milli ára sé sé lækkun álverðs. Á móti komi að tekjur hafi aukist talsvert á smásölumarkaði og tekjur af sölu á heitu vatni líka. Á kostnaðarhliðinni hafi rekstrarkostnaður orkuvera og flutningskostnaður lækkað og orkukaup aukist lítillega. Því til viðbótar hafi skrifstofu og stjórnunarkostnaður lækkað, fyrst og fremst vegna kostnaðar við gerðardómsmál vegna orkusölusamnings við Norðurál á Grundartanga sem var umtalsverður fyrstu þrjá mánuði 2013. Hann er ekki til staðar á þessu ári.