Heildarhagnaður HS Orku nam 971 milljón króna á síðasta ári, um tífalt lægri hagnaður en árið 2019 þegar hann nam 9,7 milljörðum króna. Munurinn skýrist þó helst af 11,3 milljarða söluhagnaði árið 2019 af 30% eignarhlut í Bláa lóninu til félagsins Blávarma, sem er í eigu fjórtán lífeyrissjóða.

Sömu lífeyrissjóðir eiga félagið Jarðvarmi sem er með helmingshlut í HS Orku en sjóðir í stýringu Ancala Partners LLP eiga hinn helminginn í orkufyrirtækinu. HS Orka keypti keypti eigin bréf og greiddi hluthöfum samtals 5,6 milljarða króna í reiðufé á síðasta ári.

Rekstrartekjur HS Orku lækkuðu um 241 milljón milli ára og námu 8,6 milljörðum á síðasta ári. Framleiðslukostnaður og kostnaðarverð sölu nam 6,1 milljarði, samanborið við 7,9 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður orkufyrirtækisins meira en helmingaðist milli ára og var um 923 milljónir króna. Munurinn skýrist aðallega af dómsmáli við HS Veitur yfir langtímakröfur vegna lífeyrisskuldbindinga sem HS Orka tapaði árið 2019 . Rannsóknar- og þróunarkostnaður lækkaði einnig um 235 milljónir króna milli ára og nam rúmum 42 milljónum.

Laun og launatengd gjöld HS Orku jukust um 53 milljónir milli ára og voru um 435 milljónir króna á síðasta ári. Starfsmenn orkufyrirtækisins voru 70 að meðaltali í fyrra en 71 árið 2019. Í lok síðasta árs var hlutfall kvenna í hópi starfsmanna HS Orku 19%, samanborið við 12% árið áður.

Sjá einnig: HS Orka vill kaupa Fallorku

Í febrúar 2020 tryggði HS Orka sér 210 milljóna dala fjármögnun , jafnvirði um 27 milljarða króna, frá hópi evrópskra banka. Andvirðið var að hluta til nýtt til endurfjármögnunar eldri lána en verður einnig nýtt til byggingar nýrra orkuvera.

Eigið fé HS Orku lækkaði um 4,6 milljarða króna milli ára og nam 31,9 milljörðum í árslok 2020.  Skuldir jukust um 3,9 milljarða króna og voru um 24,6 milljarðar í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall orkufyrirtækisins lækkaði því úr 63,8% í 56,5%.