Heildarhagnaður HS Veitna hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 nam 124 milljónum króna á móti hagnaði fyrir sama tímabil árið 2010 uppá 91 milljón króna. Það er hagnaðaraukning upp á 33 milljónir króna sem skýrist m.a. af hækkun tekna, hækkun á gjaldfærðri lífeyrisskuldbindingu, hækkun á niðurfærslu viðskiptakrafna og hærri verðbótum langtímalána en frá fyrra tímabili. Hækkun tekna vegna verðhækkana og magnaukningar nam 193 milljónum króna.

Tekjur hækkuðu um 9,3% á milli tímabila. Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur HS Veitna hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2.266 milljónum króna.

EBITDA-hagnaður fyrir tímabilið janúar-júní árið 2011 er 739 milljónir króna á móti EBITDA 666 milljónum króna fyrir sama tímabilið árið 2010.

Skuldir HS Veitna hf þann 30. júní 2011 nema 8.182 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, þar af eru skammtímaskuldir 660 milljónir króna. Skuldir hækkuðu um 417 milljónir króna frá 31. desember 2010. Vaxtaberandi skuldir hækkuðu um 173 milljónir króna að mestu vegna hækkun verðbóta 197 milljónir króna en afborganir voru 28 milljónir króna. Á móti hækkuðu aðrar skammtímaskuldir um 185 milljónir króna að mestu vegna ógreidds fjármagnstekjuskatts upp á 50 milljónir króna og hækkunar á ógreiddum vöxtum um 176 milljónir króna.

Eigið fé HS Veitna hf. nam 8.643 milljónum króna þann 30. júní 2011 og var eiginfjárhlutfall 51,4%. Eigið fé í ársbyrjun var 8.769 milljónir króna og eiginfjárhlutfall þá 53,0%.

"Fjárhagsstaða félagsins þann 30. júní 2011 er sterk og horfur um rekstur þess góðar. Áfram verður unnið að stækkun veitukerfa félagsins eftir því sem þörf krefur og að tryggja viðskiptavinum félagsins hámarks afhendingaröryggi," segir í fréttatilkynningu.