Hagnaður HS Veitna hf. nam 351 milljón króna á fyrri hluta ársins 2014. Það er hagnaðaraukning um 35 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra.

Samkvæmt nýjum árshlutareikningi félagsins lækkar EBITDA milli tímabila. Á fyrstu sex mánuðum ársins var EBITDA 849 milljónir króna, samanborið við 895 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Tekjur HS Veitna námu 2.612 milljónum króna og hækkuðu um 4,1% milli ára. Eiginfjárhlutfall þann 30. júní 2014 var 52,2%.

Í tilkynningu með uppgjörinu segir að hagnaðaraukningin skýrist m.a. af hækkun tekna, lækkun annars rekstrarkostnaðar og lægri verðbótum langtímalána en frá fyrra tímabili.

Reykjanesbær er stærsti eigandi HS Veitna með 50,1% eignarhlut. HSV Eignarhaldsfélag á 34,28% og Hafnarfjarðarbær 15,42%.