*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 19. febrúar 2021 17:55

Hagnaður HS Veitna lækkaði milli ára

Vegna samdráttar í raforkunotkun, sérstaklega hjá gagnaverum, stóðu tekjur af raforkudreifingu og flutningi nánast í stað.

Ritstjórn

Hagnaður HS Veitna hf. nam dróst saman um 65% milli ára og nam 563,5 milljónum króna á árinu 2020. Lækkun hagnaðar milli ára skýrist að hluta af niðurfellingu langtímaskuldar í kjölfar dóms Hæstaréttar er varðar skiptingu lífeyrisskuldbindinga milli HS Veitna og HS Orku. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatt lækkaði um 34% og nam 657 milljónum á árinu.

Tekjur HS Veitna hækkuðu um 0,5% á milli ára. Rekstrartekjur námu 7,2 milljörðum króna, þar af 3,7 milljarðar vegna raforkudreifingar og flutnings, 2,3 milljarðar vegna sölu og dreifingar á heitu vatni, 642 milljónir vegna sölu og dreifingar á fersku vatni og 525 milljónir vegna annarrar starfsemi.

Vegna samdráttar í raforkunotkun, sérstaklega hjá gagnaverum, stóðu tekjur af raforkudreifingu og flutningi nánast í stað og tekjur af ferskvatnssölu lækkuðu vegna lækkunar gjaldskrár. Um 4,3% magnaukning varð í sölu á heitu vatni sem leiddi til 6,8% hækkunar tekna en tengigjöld lækkuðu um 58 milljónir króna eftir metár 2019.

Eignir HS Veitna námu 30,6 milljörðum í árslok, skuldir 16,1 milljarði og eigið fé 14,5 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var 47,3%.

Í tilkynningu frá HS Veitum kemur fram að fjárhagsstaða félagsins sé sterk og horfur um rekstur þess góðar. Áfram verður unnið að stækkun veitukerfa félagsins eftir því sem þörf krefur og til að tryggja hámarks afhendingaröryggi til viðskiptavina.

Í áætlunum fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir að fjárfestingar HS Veitna verði um 1,6 milljarðar króna. Þar af eru 1,14 milljarðar í raforkukerfunum, 210 milljónir í hitaveitukerfunum, 100 milljónir í ferskvatnskerfunum og 150 milljónir í öðrum fjárfestingum. Áætlað er að kaupa eigin hlutabréf fyrir 500 milljónir króna, afskriftir eru áætlaðar rétt rúmur milljarður og afborganir langtímaskulda 701 milljónir. Heildartekjur eru áætlaðar um 7,7 milljarðar króna, hagnaður 860 milljónir og EBITDA um 2,8 milljarðar.

Uppgjör í kjölfar dóms stendur yfir

Í ársbyrjun 2019 var bókfærð skuld við HS Orku hf. 833 milljónir króna. Með dómi Hæstaréttar féll sú skuld niður og þar sem fjárhæðirnar höfðu árlega verið gjaldfærðar þá færðust fjárhæðirnar einnig til lækkunar kostnaðar á við niðurfellingu lífeyrisskuldbindingarnar.

Við uppskiptin á Hitaveitu Suðurnesja í HS Veitur og HS Orku árið 2009 voru 25 starfsmenn sem störfuðu fyrir HS Veitur enn að bæta við sig réttindum í B-deildum lífeyrissjóða sem HS Orka hf. bar síðan ábyrgð á. Í dag eru þessir starfsmenn 6 og fer fækkandi. Þennan kostnað eiga HS Veitur hf. að greiða og greiddu upp í hann á árunum 2009 - 2015 með álagi á laun og síðan mánaðarlegri fjárhæð á árinu 2015.

Í kjölfar dómsins þarf að gera uppgjör þar sem annars vegar kemur fram allur kostnaður sem fallið hefur á HS Orku hf. vegna þessara starfsmanna og hins vegar þær greiðslur sem HS Veitur hf. hafa innt af hendi vegna þessa kostnaðar. Vinna við þetta uppgjör stendur yfir í samstarfi við viðkomandi lífeyrissjóði.