*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 28. ágúst 2020 11:27

Hagnaður HS Veitna minnkar um fjórðung

Eignir orkudreifingafyrirtækisins námu 30,7 milljörðum í lok júní og eiginfjárhlutfall þess var 46,6%.

Ritstjórn
Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður HS Veita nam 374 milljónum króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 499 milljónir á sama tíma í fyrra. Hagnaður félagsins lækkaði því um 125 milljónir, eða um 25%, milli ára. 

Félagið rekur þetta til minni tekna af raforkudreifingu, ferskvatnssölu, tengigjöldum og á árinu 2019 var söluhagnaður fasteignar að fjárhæð 50 milljónum. Einnig hækkuðu rekstrarliðir eins og á dreifitöpum, rekstri hitaveitukerfa í Eyjum og rekstri ferskvatnsdeildar á Suðurnesjum auk þess að fjármagnsliðir hækkuðu. 

Tekjur HS Veitna námu 3,7 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins og hækkuðu um 0,9% frá fyrra ári. Kostnaðarverð sölu hækkaði hins vegar um 6,7% og nam 2,5 milljörðum á tímabilinu. 

Eignir orkudreifingafyrirtækisins námu 30,7 milljörðum í lok júní. Eigið fé var 14,3 milljarðar, skuldir 16,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 46,6%. Félagið keypti eigin bréf fyrir 500 milljónir á fyrri helmingi ársins. 

HS Veitur var stofnað 1. desember 2008 með skiptingu Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku og HS Veitur, en síðarnefnda félagið er að ríflega helmingshluta í eigu Reykjanesbæjar, HSV Eignarhaldsfélag slhf er með 34,38% hlut, Hafnarfjarðarbær með 15,42% og Suðurnesjabær með 0,1% hlut.