HSBC bankinn hefur birt ársuppgjör sitt fyrir árið 2014, en þar kemur fram að bankinn hagnaðist um 12,2 milljarða punda á tímabilinu. BBC News greinir frá þessu.

Hagnaðurinn dróst saman um 17% á milli ára, en bankinn segir háar sektar- og sáttargreiðslur eiga þátt í samdrættinum.

Fram kemur í ársreikningnum að laun Stuart Gulliver, forstjóra bankans, hafi lækkað á árinu úr 8,03 milljónum punda árið 2013 í 7,6 milljónir. Þá fékk stjórnarformaður bankans laun upp á 2,5 milljónir punda.

HSBC bankinn hefur legið undir ámæli undanfarnar vikur fyrir að hafa aðstoðað viðskiptavini sína við að komast hjá greiðslu skatta í gegnum útibú bankans í Sviss. Kom meðal annars fram í fréttum í morgun að forstjórinn Gulliver hefði sjálfur notast við leynilegan reikning í landinu til þess að halda utan um bónusgreiðslur sínar.