Hagnaður tævanska farsímaframleiðandans HTC nam aðeins um 85 milljónum tævanskra dollara, andvirði um 330 milljóna króna, á fyrsta fjórðungi þessa árs. Er hagnaðurinn ekki nema svipur hjá sjón samanborið við sama fjórðung í fyrra, þegar hagnaður fyrirtækisins nam 4,4 milljörðum tævanskra dala. Er þetta sjötti ársfjórðungurinn í röð þar sem hagnaður fyrirtækisins minnkar frá fjórðungnum á undan og hefur hagnaður HTC aldrei verið minni.

Hagnaðurinn var einnig langt undir spám, en hópur 19 sérfræðinga spáði að meðaltali hagnaði upp á 600 milljónir tævanskra dala.

Ástæða lækkunarinnar er einkum rakin til tafa á útgáfu á nýjasta síma fyrirtækisins, HTC One. Síminn átti að koma á markað í febrúar, en tafir á afhendingu mikilvægra íhluta leiddu til þess að útgáfa hans frestaðist um mánuð.