Hagnaður farsímaframleiðandans HTC dróst saman um 79% á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Alls nam hagnaðurinn um 133 milljónum dala á tímabilinu í ár. Tekjur drógust saman um 48%.

Wall Street Journal fjallar um árshlutauppgjör félagsins í dag. HTC hefur tapað hlutdeild á markaði snjallsíma til Apple og Samsung, sem skýrir minnkandi tekjur félagsins. Árið 2010 var HTC stærsti snjallsímaframleiðandinn sem studdist við stýrikerfi Google en hefur tapað hlutdeild á þeim markaði til Samsung. Samsung er nú stærsta fyrirtækið sem framleiðir síma með Android stýrikerfinu.

Ársfjórðungslegur hagnaður HTC hefur ekki verið minni síðan á árinu 2006, þegar fyrirtækið hóf fyrst að selja farsíma undir eigin merki. HTC er fjórði stærsti aðilinn þegar litið er til snjallsímamarkaðarins með um 5,7% markaðshlutdeild á öðrum ársfjórðungi í ár. Árið áður var hlutdeildin 10,7%.