Húsasmiðjan hagnaðist um 235 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaður félagsins saman um 17% milli ára samkvæmt ársreikningi félagsins. Tekjur ársins námu ríflega 18,5 milljörðum og jukust um 8% milli ára. Laun og launatengd gjöld námu rúmlega 3,5 milljörðum króna og jukust um 7% milli ára en launakostnaður sem hlutfall af tekjum var 19,1% á árinu en var 19,3% árið á undan.

EBITDA nam 531 milljón og dróst saman um tæp 9% milli ára auk þess sem rekstrarhagnaður EBIT nam 251 milljón og lækkaði um 25% milli ára. Þá nam hlutdeild félagsins í hagnaði félagsins Steinnull hf. 42 milljónum króna og lækkaði um 15 milljónir milli ára en Húsasmiðjan á 25% hlut í félaginu.

Eignir Húsasmiðjunnar námu rúmlega 6,6 milljörðum króna í lok árs og lækkuðu um 458 milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall var 44% í lok árs en var 38% í lok árs 2017.