Rekstrarhagnaður Húsgagnahallarinnar í fyrra var 67,5 milljónir króna samkvæmt nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins. Hagnaður fyrirtækisins, að frádregnum fjármagnsgjöldum, var 42,1 milljón króna.

Hagnaðurinn var hins vegar 17,1 milljón króna árið 2013 og 9,7 milljónir árið 2012. Talsverður rekstrarbati virðist því hafa orðið hjá Húsgagnahöllinni undanfarin ár.

Handbært fé frá rekstri Húsgagnahallarinnar í fyrra var neikvætt um 3,8 milljónir, en árið 2013 var það jákvætt um 19,1 milljón. Mestu munar um meiri hækkun vörubirgða og rekstrartengdra eigna, þ.e. viðskiptakrafa. Athyglisvert er að vörubirgðir fyrirtækisins vaxa verulega milli áramóta, eða úr 184 milljónum í 293 milljónir. Þá keypti fyrirtækið rekstarfjármuni fyrir 86 milljónir króna á síðasta ári.

Eigið fé Húsgagnahallarinnar var 69,3 milljónir króna í lok síðasta árs og jókst verulega milli ára, en eigið fé fyrirtækisins var 27,3 milljónir í lok árs 2013. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 14% í lok síðasta árs, en var um 10% í lok árs 2013.