Suður-Kóreski bílaframleiðandinn Hyundai kynnti ársfjórðungsuppgjör í gær, en rekstrarhagnaður fyrirtækisins dróst saman um 6,8% milli ára og nam 1,28 milljörðum dala á ársfjórðungnum. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg.

Sölutekjur bílaframleiðandans námu 31 trilljónum Suður-Kóreskum wonum, sem jafngildir 26 milljörðum Bandaríkjadala eða um 3.300 milljörðum króna. Sölutekjurnar jukust um 6,1% milli ára, en þar spilar líka inn í að Suður-Kóreska wonið hefur veikst gagnvart Bandaríkjadal að undanförnu.

Gengi hlutabréfa Hyundai Motor Co hefur sveiflast nokkuð á undanförnum mánuðum, en sveiflan hefur færst heldur niður á við á undanförnu ári. Gengið hefur lækkað um 11% síðasta mánuðinn, um 15,5% síðustu sex mánuði og 22,5% síðasta árið. Gengi bréfanna hefur ekki verið jafn lágt í rúmlega ár eða síðan í desember 2020.

Alþjóðleg smásala fyrirtækisins dróst saman um 15% á ársfjórðungnum, þar af um 43% í Kína, 8,9% í Suður-Kóreu og 7,9% í Norður-Ameríku. Hins vegar jókst smásalan í Evrópu um 7%.

Ætla sér stóra hluti á rafbílamarkaði

Bílaframleiðandinn stefnir á að selja 4,32 milljón bíla á þessu ári og ætlar sér stóra hluti á rafbílamarkaði. Rafbílasala nam 32% af heildarsölu félagsins árið 2021, en Hyundai stefnir á að það fari upp í 40% árið 2022. Félagið stefnir jafnframt á að auka rafbílasöluna um 30%, en Ioniq 6 rafbíllinn hjá Hyundai kemur á markað í Suður-Kóreu á fyrri hluta þessa árs. Markaðshlutdeild Hyundai á alþjóðlegum rafbílamarkaði er áætluð um 5,7% þegar tekið er mið af sölum á tímabilinu janúar-nóvember árið 2021.

Skortur á hálfleiðurum og öðrum nauðsynlegum tölvukubbum auk síhækkandi verðs á áli, járni og kopar, hefur hægt verulega á bílaframleiðslu. Það hefur meðal annars haft þær afleiðingar að notaðir bílar til sölu í Bandaríkjunum hækkuðu um 37,3% milli ára í desembermánuði og nýir bílar um tæp 12%, eins og kom fram í verðbólgutölum í Bandaríkjunum fyrir desembermánuð.