Hagnaður Iceland Seafood eftir skatt á fyrsta ársfjórðungi nam um 1,85 milljónir evra eða um 291,6 milljónir íslenskra króna samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins sem birt var í gær. Hagnaðurinn dróst saman um 3,1% á fyrsta ársfjórðungi frá fyrra ári.

Sala Iceland Seafood nam um 16,9 milljörðum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi ársins sem er um 11% lækkun frá sama tímabili í fyrra. Í uppgjörinu er tekið fram að heimsfaraldurinn hafði veruleg áhrif á starfsemi og frammistöðu félagsins. Það vonast þó til að salan nái sér aftur á þriðja ársfjórðungi og verði komin í góðan farveg á síðasta ársfjórðungi ársins.

Eignir félagsins hækka um 13,9% frá lok árs 2019

Iceland Seafood gekk frá kaupum á spænska félaginu Elba S.L. í lok febrúar. Heildareignir félagsins í lok mars síðastliðnum voru metnar á 37,6 milljarða króna sem er um 13,9% hærra en í lok árs 2019.

Nettó rekstrarkostnaður félagsins lækkaði úr rúmlega 2,06 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs í 1,76 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2020. Fjármögnunarkostnaður lækkaði einnig úr 87,8 í 62,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi milli ára. Eiginfjárhlutfall Iceland Seafood í lok fyrsta ársfjórðungs var 34,2% en eigið fé félagsins nemur um 81,6 milljónir evra.

Stefnt er á að ljúka sameiningu tveggja breskra dótturfélaga Iceland Seafood, Havelok og IS Barraclough, seinna á árinu. Hið nýja félag, Iceland Seafood Barraclough, mun starfa úr nýrri 10 þúsund fermetra verksmiðju í Grimsby, Englandi . Iceland Seafood býst við töluverðri samlegð í fastakostnaði, framleiðslu og frystihúsum vegna sameiningarinnar.

Tvö önnur evrópsk dótturfélög félagsins, IS S.L. og Icelandic Iberica S.A. sameinuðust í lok árs 2019 í nýtt félag Iceland Seafood Iberica. Framleiðsla á léttsöltuðum þorski hefur verið færð til Barcelona frá febrúar síðastliðnum. Iceland Seafood hefur strax hafið samþættingu á starfsemi IS Iberica og Elba.