Hagnaður Iceland Seafood nam 412 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi sem er hækkun um 132 milljónir frá sama ársfjórðungi í fyrra, eða um 47%. Hagnaður á hlut var um 15 krónur í lok ársfjórðungsins og markaðsvirði þess því um 41,3 milljarðar króna sem er 26% hækkun samanborið við árslok 2020.

Velta félagsins nam 18 milljörðum króna á þessum fjórðungi sem er svipað og á tímabili í fyrra, eða um 1% lækkun. Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á veltu félagsins í Suður Evrópu á fyrstu tveim mánuðum tímabilsins. Veltan batnaði svo í mars þegar að takmörkunum var aflétt að hluta til og þá jókst eftirspurn töluvert fyrir páska.

Heildareignir félagsins námu tæpum fjórum milljörðum í lok fjórðungsins en það skýrist af miklu leyti af hárri birgðastöðu félagsins í Suður-Evrópu og auknum fjölda viðskiptakrafna þökk sé mikilli veltu í marsmánuði. Þá hækkar verðmæti eigna félagsins um 9,6% á milli ársfjórðunga.

Viljayfirlýsing um kaup á spænsku smásölufyrirtæki

Félagið skrifaði undir viljayfirlýsingu um kaup á 80% hlut í spænska smásölufyrirtækinu Ahumados Dominguez sem sérhæfir sig í framleiðslu á reyktum laxi. Yfirtakan kemur til með að styrkja stöðu Iceland Seafood á spænska markaðinum en lax er ásamt lýsingi vinsælasta fisktegundinn á Spáni. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Velta félagsins á síðasta ári nam 2,9 milljörðum króna og EBIDTA hagnaður félagsins var um 257 milljónir króna. Samkvæmt viljayfirlýsingunni hljóðar kaupverðið upp á 8,8falda EBIDTA félagsins að frádregnum skuldum og handbæru fé. Kaupin verða fjármögnuð með lántöku og eigin fé.

Fari kaupin í gegn verður Pedro Mestanza áfram framkvæmdastjóri félagsins ásamt því að halda 20% hlut í félaginu.

Stærsti hluthafi Iceland Seafood ehf. eru Bjarni Ármannsson, sem er einnig framkvæmdastjóri, með 11%. Þar á eftir koma Nesfiskur ehf., FISK Seafood ehf. og Jakob Valgeir ehf. með 10% hlut.