Hagnaður Iceland Seafood International jókt um 30% á milli ára á síðasta ári en hann nam þá 6,1 milljón evra, eða sem nemur 853 milljónum króna, en hafði hafði verið tæplega 4,7 milljónir evra árið áður.

Er þá miðað við afkomu að teknu tilliti til einskiptisliða, þar á meðal skráning á aðalmarkað, breytingar í yfirstjórn og sameiningu félaga á Spáni, sem kostuðu félagið í heildina 2,9 milljónir evra á síðasta ári en ríflega 1 milljón árið áður. Utan slíkra liða, stefnir félagið á að auka hagnað sinn á árinu, fyrir skatt um 28 til 46%, frá fyrra ári.

Tekjur ISI jukust um 29,5% á milli áranna 2019 og 2018, eða úr tæplega 346 milljónum evra í 448,2 milljónir evra, meðan rekstrarkostnaðurinn jókst um 56,1% milli ára, úr 336,8 milljónum evra í 434,4 milljónir evra.

Eigið fé félagsins jókst um 35,2% milli ára, úr 59,3 milljónum evra í 80,2 milljónir evra, meðan skuldirnar drógust saman um 3,9%, úr 134,5 milljónum evra í 129,2 milljónir evra. Þar með jukust eignirnar um 8,1%, úr 193,8 milljónum evra í 209,5 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 30,6% í 38,3%.

Bjarni Ármannsson framkvæmdastjóri Iceland Seafood International segist bæði ánægður með afkomu síðasta árs og að hann líti á þær sem ásættanlegar þar sem þær hafi verið innan áætlana fyrir árið.

Jafnframt hafi félagið náð árangri í markmiðum sínum og að enn betri samvinna hafi náðst við birgja félagsins. Árið hafi einkennst af háum einskiptisliðum vegna sameininga á Spáni, breytinga í yfirstjórn og skráningu á markað.