Hagnaður Ísfélags Vestmannaeyja minnkaði milli ára úr tæpum 25 milljónum Bandaríkjadala, eða því sem jafngildir 2,87 milljörðum króna, árið 2014 niður í tæpa 10 milljónir dala, því sem jafngildir 1,15 milljörðum króna, árið 2015.

Þessar tölur miðast við samstæðu fyrirtækisins, en fyrirtækið á dótturfyrirtækin Dala-Rafn ehf., Fiskmarkað Þórshafnar ehf., Jupter Shipping ehf., IVM2 ehf. og Fagranes útgerð ehf.

Skattgreiðslur námu 290 milljónum króna

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 116 milljónum dala, en rekstrargjöldin námu 84 milljónum. Hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta námu því 12 milljónum króna en félagið greiddi 2,5 milljónir dala, eða andvirði 288 milljóna króna, í skatta.

EBITDA framlegð samstæðunnar var 27,8% á árinu, en hún fór úr 24,4% fyrir árið á undan. Eignir félagsins námu 298 milljónum dala í lok síðasta árs, en ári fyrr námu eignir þess 280 milljónum dala. Þar af eru aflaheimildir félagsins metnar á 118 milljón dali, sem er aukning um 10 milljón dali frá árinu á undan.

Guðbjörg Matthíasdóttir stærsti eigandinn

Bókfært eigið fé samstæðunnar nam 128 milljónum króna í lok ársins, sem er lækkun frá 130,6 milljónum árið á undan. Eiginfjárhlutfallið lækkaði einnig og fór það úr 46,7% árið 2014 í 43,1% árið 2015.

Um 89% hlutafjár í félaginu er í eigu ÍV frjáfestingarfélags sem er að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur.