Fiskvinnslan Ísfiskur á Akranesi, sem í gær sagði upp öllu starfsfólki sínu, skilaði um 237 milljónum króna hagnaði á síðasta ár,i samanborið við tæplega 100 milljón króna tap árið 2017. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2018. Rekstrartekjur vegna sölu afurða námu 997 milljónum króna í fyrra og drógust saman um 20% frá árinu á undan þegar þær voru 1.214 milljónir króna.

Ástæðan á bak við betri afkomu á síðasta árs má rekja til tekna vegna sölu fastafjármuna að upphæð 517 milljónir. Þá voru aðrar tekjur um 45 milljónir króna og heildartekjur félagsins því 1.558 milljónir króna, samanborið við 1.214 milljónir árið 2017.  Einskiptistekjur voru því 36% af heildartekjum félagsins í fyrra og að þeim undanskildum má gróflega áætla að afkoma síðasta árs hefði verið neikvæð um 300 milljónir króna.

Stjórn Byggðastofnunar kemur saman um miðjan þennan mánuð og mun taka ákvörðun um hvort stofnunin muni veita félaginu langtímafjármögnun. Í frétt mbl.is segir að ef Byggðastofnun veiti jákvætt svar verði unnt að afturkalla uppsagnir um það bil 50 starfsmanna. Verði svarið neikvætt muni fólkið missa vinnuna og fyrirtækið hætta starfsemi.

„Þetta er fyr­ir­tæki sem er að mínu mati líf­væn­legt hafi það lang­tíma­fjár­mögn­un og ég vona að Byggðastofn­un sjái það sömu aug­un, til þess er Byggðastofn­un, að grípa inn í svona mál,“ seg­ir Sæv­ar Freyr Þrá­ins­son bæj­ar­stjóri Akra­nes­kaupstaðar í sam­tali við mbl.is.

Einnig er rætt við Al­bert Svavars­son, fram­kvæmda­stjóra Ísfisks. „Við höf­um verið að reyna að end­ur­fjármagna fé­lagið. Við höfðum ákveðna fjár­mögn­un í Kópa­vogi en okk­ur hef­ur ekki tek­ist að fá sam­bæri­lega fjár­mögn­un upp frá. Þetta hef­ur strítt okk­ur í rekstr­in­um,“ segir hann.

Hann segir jafnframt að áfram verði unnið að því að reyna að end­ur­fjármagna fé­lagið meðal ann­ars með aðkomu eig­enda og til­tek­ins sjóðs, sem Al­bert vill ekki nafn­greina. „Ég er al­veg vongóður en ég geri ekki ráð fyr­ir neinu. Við vinn­um að þessu verk­efni og annaðhvort tekst það eða ekki. Maður er alltaf vongóður þangað til maður er bú­inn að reyna allt,“ seg­ir Al­bert í samtali við mbl.is.

Eignir Ísfisk undir lok síðasta árs voru samtals 940 milljónir króna og drógust saman um 1.425 árið á undan. Skuldir voru samtals 794 milljónir króna í fyrra miðað við 1.025 milljónir króna árið 2017. Eigið fé var 146 milljónir á síðasta ári en var tæplega 400 milljónir króna árið 2017.