Iceland Seafood International (ISI) hagnaðist um 5,1 milljónir evra fyrir skatta á síðasta ári sem er meira en helmingslækkun frá árinu 2019 þegar hagnaður fyrir skatta nam 11,4 milljónum evra. Hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 2,1 milljón evra eða um 41% af hagnaði ársins. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 3,7 milljónum evra, eða um 573 milljónir króna, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Sala ISI á síðasta ári dróst saman um 15% frá fyrra ári og nam 369,8 milljónum evra, sem samsvarar 57,3 milljörðum króna.

Eignir félagsins námu 241 milljón evra í lok árs 2020. Eigið féð lækkaði um tæpar fimm milljónir evra og voru samtals 75,3 milljónir evra í árslok. Skuldir ISI hækkuðu hins vegar um úr 129,2 milljónum evra í 166,2 milljónir evra, eða um samtals 37 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar lækkaði því úr 38,3% í 31,2% á síðasta ári.

Félagið segir að árið 2021 hafi byrjað vel þrátt fyrir áframhaldandi vandræði tengdum Covid. ISI spáir að hagnaður samstæðunnar verði á bilinu 12-17 milljónir evra að því gefnu að það létti á Covid takmörkunum á lykilmörkuðum í kringum mitt ár.

„Árið 2020 verður að flokka sem mjög óvenjulegt ár. Áhrifin af Covid-19 faraldrinum vegur þyngra en allt annað á bæði rekstrarstiginu og á efnahagsreikningnum okkar. Árið var virkilega brösugt. Að gefnu ástandinu, náði Iceland Seafood að halda áfram uppbyggingu rekstursins í Evrópu og það er mín trú að við séum í sterkari og samkeppnishæfari stöðu heldur en fyrir upphaf heimsfaraldursins,“ er haft eftir Bjarna Ármannsyni, forstjóra ISI, í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Metframleiðsla á argentískum rækjum

Ávinningur af fjárfestingu ISI í Argentínu er sögð áberandi á fjórða ársfjórðungi. Metframleiðsla á argentínskum rækjum bætti hagnaðarhlutfall Achernar, argentíska dótturfyrirtækis ISI, frá fyrra ári.

Eftirspurn eftir smásölu jókst á árinu vegna áhrif samkomutakmarkana á veitingageirann. Þá var sala írsku dótturfélaganna Oceanpath og Carr&Sons sterk yfir jólatímann..

Öll starfsemi ISI í Bretlandi var færð í nýja verksmiðju í Grimsby. Þar sameinaðist rekstur dótturfyrirtækjanna Havelok og Iceland Seafood Barraclough undir nafninu Iceland Seafood UK. Í tilkynningu ISI segir að samruninn hafi verið flóknari og kostað meira en gert var ráð fyrir sem hafði neikvæð áhrif á niðurstöðu fjórða ársfjórðungs.