Alls hefur Íslandsbanki hagnast um 16,2 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 11,3 milljörðum. Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaðurinn 4,6 milljörðum samanborið við 3,3 milljarða í fyrra.

Uppgjör þriðja ársfjórðungs var birt í dag. Hagnaður eftir skatta af reglulegri starfsemi var 10,8 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins. Skattar og gjöld voru 6,7 milljarðar á tímabilinu og hækka frá því að vera 4,5 milljarðar á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Nettó tekjufærsla vegna endurmats lánasafnsins var jákvæð um 2,8 milljarða á tímabilinu.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 16,3% samanborið við 11,9% á sama tímabili 2011. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 10,9% samanborið við 12,0% í fyrra.

Í uppgjörstilkynningu segist Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, vera ánægð með uppgjörið sem sé í takt við fyrri árshlutareikninga. „Þóknanatekjur hafa aukist milli ára og má rekja það meðal annars til aukinna verkefna tengdum markaðsviðskiptum og fyrirtækjaráðgjöf. Við sjáum skýr merki þess að markaðir eru að lifna við. Íslandsbanki hafði umsjón með skuldabréfaútboði Eikar fasteignafélags en útboðið var það stærsta hjá einkaaðila frá árinu 2008 og markar ákveðin tímamót í fyrirtækjafjármögnun. Þá hafði Íslandsbanki umsjón með skráningu hlutabréfa Eimskipa og er að vinna að fyrirhugaðri skráningu hlutabréfa Vodafone í kauphöllina auk þess sem unnið er að skráningu annarra stórfyrirtækja á markað,“ segir Birna.