Íslandsbanki hagnaðist um 8,1 milljarða króna á fyrri helmingi ársins samkvæmt uppgjöri bankans sem birt var rétt í þessu. Hagnaður tímabilisins er 230 milljónum króna lægri en í fyrra sem skýrist af því að hreinar vaxtatekjur dragast talsvert saman auk þess sem hreinar þjónustutekjur dragast eilítið saman.

Hreinar vaxtatekjur að loknum virðisbreytingum lána námu nú 15,9 milljörðum króna en 16,4 milljörðum í fyrra og hreinar þjónustutekjur námu um 3 milljörðum nú en 3,3 í fyrra.

Þá hafa eignir bankans dregist saman það sem af er ári, eru 554 milljarðar nú en voru 562 milljarðar um áramót en eigið fé hefur á móti aukist um rúma sjö milljarða, er 129 milljarðar nú. Eiginfjárhlutfall er 28% sem ber að skoða í ljósi tilmæla FME um 16% eiginfjárhlutfall. Sjóður bankans, reiðufé og eignir sambærilegar reiðufé, nam 43,2 milljörðum í lok júní en var 39,5 milljarðar fyrir ári síðan.

Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins var 12,9%.

Launakostnaður bankans jókst um 372 milljónir króna á milli ára.