Hagnaður eftir skatta var 7,1 milljarða króna á fyrsta helming ársins samanborið við 8 milljarða króna á fyrri helming ársins 2017 og arðsemi eigin fjár 8,2% á ársgrundvelli.

Hagnaður af reglulegri starfsemi var 6,8 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 9,9% á ársgrundvelli.

Hreinar vaxtatekjur voru 15,3 ma. kr. og var vaxtamunur 2,8%.

Hreinar þóknanatekjur voru 5,8 milljarðar króna sem er 15% lækkun frá fyrri helming 2017 og má að mestu rekja til lækkunar á þóknanatekjum í tveimur dótturfélögum bankans.

Virðisbreyting útlána skilaði 1,9 milljarða króna hagnaði á fyrri árshelmingi samanborið við 440 milljarða hagnaði fyrri helming ársins 2017.

Stjórnunarkostnaður án einskiptisliða jókst um rúm 3% á milli ára og nam 13,7 milljörðum króna. Hækkunin skýrist einkum af samningsbundnum launahækkunum auk kostnaðar vegna innleiðingar á nýju grunnkerfi bankans.

Útlán til viðskiptavina jukust um 5,9% eða 44,8 milljarða í samtals 800 milljarða króna. Ný útlán á fyrri árshelmingi voru 98,5 milljarðar króna og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans en innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 2% eða 11,4 ma. kr. Heildarinnlán námu 578 milljörðum.

Lausa- og eiginfjárstaða bankans er áfram sterk og er umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið.

Hagnaður eftir skatta var 5 ma. kr. og arðsemi eigin fjár 11,6% á ársgrundvelli sem er sambærilegur hagnaður og arðsemi miðað við sama tímabil árið 2017.

Bankinn hélt áfram að þróa nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini en sem dæmi má nefna að um 6.500 yfirdráttarlánaumsóknir að fjárhæð 2,2 milljarðar voru sjálfkrafa samþykktar í Íslandsbanka appinu á fyrri hluta ársins.

Innleiðing á nýju grunnkerfi bankans komst á lokastig og stefnt er að gangsetningu á þriðja ársfjórðungi 2018.

Fjárfestingarbankastarfssemi var öflug á tímabilinu með ýmsum skuldabréfútgáfum og sambankalánum fyrir viðskiptavini.

Í apríl fékk bankinn endurnýjun viðurkenningar um góða stjórnarhætti frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti. Fjármálatímaritið Euromoney valdi í júlí Íslandsbanka besta bankann á Íslandi árið 2018. Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti í júlí lánshæfismat bankans í BBB+/A-2, stöðugar horfur.

„Rekstur bankans á fyrri helmingi ársins var umfram væntingar og skilaði bankinn hagnaði upp á 7,1 milljarð króna sem er 8,2% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli. Móðurfélagið heldur áfram að skila stöðugum þóknana- og vaxtatekjum auk þess sem hagstætt efnahagsumhverfi hefur leitt til jákvæðrar virðisrýrnunar á eignasafni bankans sem stendur vel í alþjóðlegum samanburði. Töluverð umsvif voru í fjárfestingarbankastarfsemi á fyrstu sex mánuðum ársins en sjávarútvegsteymi bankans var m.a. umsjónaraðili fyrir 190 milljóna evra sambankalán fyrir HB Granda og verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf bankans unnu náið saman við skuldabréfaútgáfur fyrir HS Veitur, Byggðastofnun, Eik fasteignafélag og Garðabæ. Ánægðir viðskiptavinir Íslandsbanka hafa tekið stafrænum lausnum bankans fagnandi. Aldrei hafa jafn margir viðskiptavinir verið virkir notendur stafrænna lausna og sinna nú yfir 90% viðskiptavina hefðbundnum bankaviðskiptum í gegnum netbanka eða öpp Íslandsbanka. Greiðsludreifingar kreditkortareikninga og stafrænt greiðslumat húsnæðislána eru meðal þeirra lausna sem kynntar voru viðskiptavinum á fyrri helmingi ársins. Bankinn gaf út ýmsar skýrslur á tímabilinu og í júlí valdi alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney Íslandsbanka sem besta bankann á Íslandi og var þetta í fimmta sinn sem bankinn hlýtur viðurkenninguna. Framundan er Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem er stærsti fjáröflunarviðburður ársins en í fyrra söfnuðust 118 milljónir króna til góðgerðarfélaga. Við hvetjum alla til að taka þátt þann 18. ágúst og styðja við góðgerðarstarfssemi með áheitum á keppendur," segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.