„Ég er ánægð með þetta uppgjör,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Hagnaður bankans nam  4,6 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi  sem er 40% meira en í fyrra þegar hagnaðurinn nam 3,3 milljörðum króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur bankinn hagnast um 16,2 milljarða sem er 4,9 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að hagnaður Íslandsbanka af reglulegri starfsemi lækkaði lítillega á milli ára. Hann nam 10,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við 11,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 16,3% samanborið við 11,9% í fyrra. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 10,9% samanborið við 12% í fyrra.

Heildareignir Íslandsbanka við lok fjórðungsins námu 813 milljörðum króna samanborið við 796 milljörðum króna um áramótin. Heildarinnlán við lok ársfjórðungsins námu 524 milljörðum króna, sem er tveimur milljörðum minna en um síðustu áramót. Eigið fé Íslandsbanka nam 140 milljörðum króna í lok þriðja fjórðungs, sem er 13,2% meira en um áramótin. Eiginfjárhlutfallið nam á sama tíma 24,3 %.

Vinnur að skráningu nokkurra félaga á markað

Í uppgjörinu er haft eftir Birnu að þóknanatekjur hafi aukist á milli ára. Það megi m.a. regkjua til aukinna verkefna tengdum markaðsviðskiptum og fyrirtækjaráðgjöf. „Við sjáum skýr merki þess að markaðir eru að lifna við,“ segir hún og rifjar upp að bankinn hafi bæði haft umsjón með skuldabréfaútboði Eikar fasteignafélags og skráningu Eimskips á markað. Þar að auki hefur Íslandsbanki umsjón með skráningu Vodafone á markað auk fleiri fyrirtækja sem stefna sömu leið.