*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 9. maí 2018 08:58

Hagnaður Íslandsbanka minnkar um 30%

Bankinn hagnaðist um 2,1 milljarða fyrstu þrjá mánuði ársins. Útlánin nema 776 milljörðum króna en innlánin 575 milljörðum.

Ritstjórn
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka kynnti uppgjör bankans.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 2,1 milljarði króna, sem er 30% samdráttur um fá sama tímabili árið áður þegar hagnaðurinn nam 3,0 milljarði króna.

Arðsemi eigin fjár nam 4,8% á fjórðungnum, en á sama tíma árið 2017 nam hún 7,0%. Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka segir að á ársfjórðungnum hafi efnahagsreikningur bankans stækkaði um 5,1% og nema þeir nú 1.088 milljarði króna.

Birna segir kostnaðinn enn of háan

„Það var góður gangur í nýjum húsnæðislánum sem uxu um 5% frá árinu á undan,“ segir Birna. „Kostnaður er enn of hár hjá bankanum en 2,9% raunhækkun frá fyrra ári má að mestu má rekja til launakostnaðar vegna vinnu við nýtt innlána- og greiðslukerfi auk annarra samningsbundinna launahækkana.“

Hagnaður af reglulegri starfsemi fór úr 3,5 milljörðum króna niður 2,9 milljarða, og var arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 8,2% á fjórðungnum. Á 1. ársfórðungi 2017 var það 10,6%. Hreinar vaxtatekjur jukust um 4,6% og voru 7,7 milljarðar en voru 7,4 milljarðar. Vaxtamunur var 2,9% sem er sama og fyrir ári.

Hreinar þóknanatekjur voru 2,8 milljarðar, sem er lækkun frá 3,3 milljörðum árið áður um 15%. Má að mestu rekja hana til lækkunar á þóknanatekjum í tveimur dótturfélögum bankans segir í fréttatilkynningu bankans. Stjórnunarkostnaður án einskiptisliða hækkaði um 7,3% milli ára og nam hann 6,8 milljörðum króna. En sé tekið tillit til verðbólgu fyrir tímabilið, þá var hækkunin 2,9%.

201 milljóna meiri útlán en innlán

Útlán til viðskiptavina jukust um 2,8%, eða um 21 milljarð króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og nema þau 776 milljörðum króna í heildina. Ný útlán á fjórðungnum voru 42 milljarðar og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans á meðan innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 1,4% eða 8,2 milljarða frá árslokum 2017. Heildarinnlánin voru 575 milljarðar.

Bankinn gaf í janúar út 300 milljóna evru skuldabréf á 75 punkta álagi yfir millibankavexti í evrum til 6 ára en með innköllunarheimild eftir 5 ár. Viðskiptin mörkuðu tímamót í rekstri Íslandsbanka en um var að ræða lengstu skuldabréfaútgáfu og bestu kjör erlendis sem íslensk fjármálastofnun hefur notið frá árinu 2008 segir í tilkynningunni.

Byggja sjálfir á gömlu höfuðstöðvalóðinni

Í febrúar kynntu Íslandssjóðir uppbyggingarfélagið 105 Miðborg til leiks sem mun reisa í samstarfi við fjárfesta, nýtt 42.000 fermetra borgarhverfi á Kirkjusandi á næstu árum. Á aðalfundi bankans í mars var samþykkt að greiða 13 milljarða króna af hagnaði ársins 2017 í arð til hluthafa en bankinn hefur þá greitt um 76 milljarða króna í arð til hluthafa frá árinu 2013.

Sjálfvirkur afgreiðslubúnaður bankans vegna umsókna um yfirdráttarheimild hefur samþykkt um 4.500 lánveitingar frá því hann var tekinn í notkun byrjun febrúar. Nýlega opnaði Íslandsbanki fyrir samstarf við nýsköpunarfyrirtæki um þróun á framtíðar fjártæknilausnum fyrir viðskiptavini.