Hagnaður Íslandspósts nam 104 milljónum króna árið 2020, samanborið við 511 milljóna króna tap árið áður. Afkoma félagsins hækkaði því um 615 milljónir króna milli ára. Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins sem var kynnt á aðalfundi í dag.

Tap var á hefðbundnum rekstri upp á 230 milljónir króna, samanborið við 732 milljóna króna tap árið 2019. Það skýrist aðallega af 749 milljóna króna tapi af alþjónustu Íslandspósts, en tap af alþjónustunni nam 1,1 milljarði árið áður. Afkoma af öðrum rekstri nam 519 milljónum króna árið 2020 og jókst um 140 milljónir króna milli ára.

Heildartekjur félagsins námu rúmum 7,5 milljörðum króna og lækkuðu um tæpar 288 milljónir milli ára. Rekstrargjöld lækkuðu um 698 milljónir króna frá fyrri ári og námu 6,8 milljörðum króna árið 2020. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 437 milljónir, eða um 8,5%, milli ára og námu 4,7 milljörðum króna.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) fór úr 267 milljónum króna árið 2019 í 676 milljónir á síðasta ári.

„Árangur sem þessi er alls ekki sjálfgefinn, endurskipulagning og niðurgreiðsla langtímalána hefur létt umtalsvert á félaginu og okkur tókst með samstilltu átaki stjórnar og starfsfólks að bregðast við tekjuminnkun vegna minni inn- og útflutnings. Íslandspóstur er á réttri leið,“ er haft eftir Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Íslandspósts, í fréttatilkynningu.

„Pakkar halda áfram að aukast í kerfi Íslandspósts og búist er við að sú þróun haldi áfram á komandi árum. Þrátt fyrir þann góða árangur sem hefur náðst er félagið ekki komið á lygnan sjó. Um leið og endurskoða þarf ákvæðið um að eitt verð gildi á öllu landinu þarf að huga að því hvaða þjónustustig gildi til framtíðar.

Bréfasendingum hefur fækkað um tæp 80% frá aldamótum og þeim á eftir að fækka enn frekar á komandi árum. Þetta mun hafa mikil áhrif á rekstur félagsins. Það gerir verkefnið því snúnara að á sama tíma og bréfunum fækkar fjölgar bréfalúgunum. Kostnaður við dreifingarnetið eykst en kröfur um góða þjónustu vaxa. Umhverfi Íslandspósts er því síbreytilegt. Meiri áhersla er nú á stafrænar lausnir, sjálfsafgreiðslu, hraða og nálægð en Íslandspóstur og starfsmenn félagsins leggja mikla áherslu á að mæta þessum nútímakröfum,“ segir Þórhildur Ólöf.