Hagnaður Íslandssjóða á fyrstu sex mánuðum ársins nam 114 milljónum króna og jókst um 148% milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka. Íslandssjóðir hf. er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka.

Hreinar rekstrartekjur á tímabilinu námu 694 milljónum samanborið við 567 milljónir á sama tímabili í fyrra sem er aukning um tæp 23%. Rekstrargjöld námu 551 milljón samanborið við við 509 milljónir á sama tímabili 2016 og hækkuðu um 8,3%.

Eignir í stýringu í sjóðum og sérgreindum eignasöfnum námu alls 203 milljörðum króna í lok tímabilsins, auk fagfjárfestasjóða og fjárfestingafélögum í stýringu hjá Íslandssjóðum. Í lok júní 2017 voru 26 verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 121 milljarði samanborið við 116 milljarða í árslok 2016.

Ávöxtun verðbréfa- og fjárfestingarsjóða nam 4.250 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 470 milljónir á sama tíma 2016.

Eigið fé 30. júní 2017 nam 2.111 milljónir króna en var 2.094 milljónir. í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 64,4% í lok júní, en þetta hlutfall má lægst vera 8,0%.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að starfsmönnum hafi fjölgað úr 15 í 19 á tímabilinu.

Í tilkynningunni segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:

„Rekstur Íslandssjóða gengur vel og góður árangur náðist víðast hvar í starfseminni. Þá ber sérstaklega að fagna góðri ávöxtun verðbréfa- og fjárfestingarsjóða félagsins sem margir hverjir hafa skilað framúrskarandi ávöxtun það sem af er ári. Um tíu þúsund íslenskir sparifjáreigendur velja sjóði Íslandssjóða til að ávaxta sinn sparnað og því skiptir góður árangur í stýringu sjóðanna miklu máli og er til vitnis um faglega og öfluga eignastýringu. Félagið er auk þess að vaxa sem skilar sér í aukinni sérþekkingu starfsmanna og nýjum og spennandi fjárfestingarkostum, bæði fyrir almenna sparifjáreigendur og fagfjárfesta“.