Íslandssjóðir högnuðust um 169 milljónir króna á fyrri helmingi ársins, sem er um 35% lægra en á sama tíma í fyrra þegar hagnaður félagsins nam 262 milljónum. Félagið rekur þetta til lægri ávöxtunar af eignum félagsins en meðalávöxtun sjóða nam um 6% á ársgrundvelli.

Afkoma sjóðanna, sem rennur til sparifjáreigenda í formi ávöxtunar, nam 8,2 milljörðum og jókst um 223 milljónir milli ára. Eignir í stýringu Íslandssjóða námu 332 milljörðum króna í lok júní. Þá voru 22 sjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 188 milljörðum. Um ellefu þúsund fjárfestar eiga hlutdeildarskírteini í sjóðum Íslandssjóða. Eigið fé félagsins nam 1,7 milljörðum og eiginfjárhlutfall þess 45,8% í lok júní.

Á fyrri hluta ársins starfaði að meðaltali 21 starfsmaður hjá félaginu. Heildarlaunakostnaður félagsins fyrstu sex mánuði ársins nam alls 297 milljónum króna. Meðallaun starfsmanna var 1,8 milljónir á mánuði.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrif heimsfaraldursins á rekstur félagsins hafa þegar komið fram að einhverju leyti og felast í samdrætti í tekjum af sérhæfðum fjárfestingum og lækkun á virði eignasafns Íslandssjóða. „Alls hafa þessi áhrif þó verið óveruleg og nema innan við 10% af heildartekjum og innan við 5% af eignasafni félagsins.“

Samþykkt var að greiða út arð til hluthafa að fjárhæð 936 milljónum króna á aðalfundi félagsins sem haldinn var 2. apríl síðastliðinn.

„Góður árangur í eignastýringu er ekki sjálfsagður á tímum sem þessum. Mikil eignadreifing, gott samval eigna og áhersla á ríkisskuldabréf og áhættuminni eignaflokka hefur skilað viðskiptavinum okkar góðri ávöxtun undanfarin ár,“ er haft eftir Kjartani Smára Höskuldssyni, framkvæmdastjóra Íslandssjóða, í frétt á vef Íslandsbanka .

„Áhrifa COVID-19 faraldursins gætir nú helst í sérhæfðum fjárfestingum sem tengjast ferðaþjónustu sem og í auknum sveiflum í skráðum hlutabréfum. Á heildina litið er ávöxtun sjóða betri en í fyrra, en ljóst er að framundan er tímabil lágra vaxta þar sem eignadreifing mun skipa lykilhlutverk í vel heppnaðri eignastýringu.“