Hagnaður af rekstri Íslenskra verðbréfa hf. árið 2010 nam 170 milljónum króna. Niðurstaðan er í samræmi við áætlanir félagsins og í takt við afkomu þess árið 2009,segir í tilkynningu um uppgjörið. Hagnaður ársins 2009 nam 166 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins (CAD) var í árslok 26,7% en hlutfallið má ekki vera lægra en 8% skv. 84. grein laga um fjármálafyrirtæki.

Vöxtur var á öllum sviðum eignastýringar, hvort sem horft er til einstaklinga eða fagfjárfesta. Alls stýrði félagið 116 milljörðum króna fyrir viðskiptavini sína í árslok 2010 samanborið við 95 milljarða króna í árslok 2009.

„Árangurinn er í takt við áætlanir og ljóst að sérstaða félagsins hefur aldrei verið eins mikilvæg og í kjölfar hrunsins. Hún er jafnframt lykillinn að góðum árangri hvort sem horft er á árangur í eignastýringu eða afkomu félagsins“ segir Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, í tilkynningu. Hann kveðst að vonum ángæður með árangurinn.

Ennfremur segir í fréttatilkynningu félagsins:

„Sérstaðan felst í því að sinna einungis eignastýringu og miðlun, ólíkt samkeppnisaðilum sem margir hverjir stunda eigin fjárfestingar og fyrirtækjaráðgjöf samhliða eignastýringu.

Framúrskarandi fyrirtæki – efst íslenskra fjármálafyrirtækja

Íslensk verðbréf eru í efsta sæti fjármálafyrirtækja í ítarlegri greiningu sem Creditinfo vann meðal 32.000 fyrirtækja á Íslandi. Fyrst og fremst var horft til bestu einkunna í styrk-og stöðugleikamati og eru Íslensk verðbréf í 27. sæti af öllum þeim fyrirtækjum sem skoðuð voru. Við valið voru síðustu þrír ársreikningar fyrirtækja lagðir til grundvallar og þurftu þau meðal annars að sýna fram á rekstrarhagnað og jákvæða ársniðurstöðu.

Um Íslensk verðbréf

Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem hófu starfsemi árið 1987. Starfsmenn eru 21 talsins, höfuðstöðvar þess eru á Akureyri en jafnframt starfrækir félagið skrifstofu að Sigtúni 42 í Reykjavík. Eignir í stýringu nema 116 milljörðum króna í árslok 2010.“