Hagnaður Ístak nam um 4% af veltu fyrirtækisins eða um 529 milljónum króna samanborið við 193 milljónir króna árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Velta Ístaks jókst um 26% milli ára úr 10,4 milljörðum í 13,1 milljarð og framlegð af verklegum framkvæmdum jókst á milli ára og var 10,1% rekstrarárið 2017/18 samanborið við 9,1% árið áður.

Skrifstofu og stjórnunarkostnaður hækkar um 10% milli ára en lækkar sem hlutfall af veltu og fjármagnskostnaður dróst saman um 67 milljónir á milli ára. Eignir félagsins námu 5,7 milljörðum í lok rekstrarársins.

„Félagið stendur sterkt með 30% eiginfjárhlutfall. Það lauk fjölbreyttum verkefnum á síðasta ári m.a. stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, stækkun og endurbótum á Klettaskóla, stækkun og endurbótum á höfninni við Norðurgarð og nýju íþróttahúsi við Egilshöll svo eitthvað sé nefnt. Verkefnastaða hjá félaginu er góð næstu misseri, alls vinnur fyrirtækið við 17 framkvæmdir eins og er. Þar eru stærstar nýtt Hús íslenskra fræða, gas og jarðgerðarstöð Sorpu, breikkun Reykjanesbrautar, stúdentagarðar við Sæmunargötu og Brúarvirkjun," segir í tilkynningu frá Ístak.