ÍV sjóðir hf. högnuðust um 7 milljónir króna á árinu 2015. Hreinar rekstrartekjur félagsins námu þá 174 milljónum króna en þær jukust um 8,7% milli ára. Eigið fé félagsins nam 50,7 milljónum króna í lok árs. Þetta kemur  fram í fréttatilkynningu frá ÍV sjóðum.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var fyrir skömmu síðan voru Arnbjörg Sigurðardóttir og Ingvar Gíslason endurkjörin í stjórn félagsins. Kolbeinn Friðriksson var þá kjörinn nýr inn í stjórn ÍV sjóða. Kolbeinn er fjármálastjóri Hölds ehf. - Bílaleigu Akureyrar.

Félagið annaðist rekstur 16 mismunandi sjóða á árinu sem leið en þrír nýir fjárfestingasjóðir voru stofnaðir í desember og munu hefja starfsemi á þessu ári. Heildareignir í stýringu hjá ÍV sjóðum námu 36,7 milljörðum króna í árslok 2015 og jukust um rúma níu milljarða milli ára.

Ávöxtun sjóða í rekstri félagsins var góð í samanburði við sambærilega sjóði. Rekstur ÍV Skammtímasjóðs, sem fjárfestir að meginstefnu í innlánum, gekk sérstaklega vel og óx sjóðurinn úr rúmum 6,0 milljörðum kr. í ársbyrjun í rúma 13,5 milljarða kr. í árslok.