Jarðboranir hf. skiluðu 278 milljóna króna hagnaði á síðasta ári og dróst hann saman um meira en helming á milli ára. Nam hagnaðurinn 567 milljónum króna ári fyrr.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu nú 4.544 milljónum króna til samanburðar við 6.790 milljónir króna árið áður. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir (EBITDA) nam 142 milljónum króna á árinu 2014 en var 1.488 milljónir króna á árinu 2013.

Fram kemur í ársreikningnum að veruleg breyting hafi orðið á fjármögnun Jarðborana með samningi við viðskiptabanka fyrirtækisins um niðurfellingu á hluta af langtímaskuldum þess. Fékk félagið niðurfellingu skulda sem nemur 1,5 milljörðum króna. Hefði ekki komið til hennar hefði tap félagsins á árinu numið 1.222 milljónum króna.

704 milljóna virðisrýrnun

Þá kemur fram að rekstraráætlanir fyrirtækisins fyrir árið hafi ekki gengið eftir þar sem verkefnastaða þess var ekki í samræmi við væntingar. Að sama skapi hafi verkefnastaða félagsins á fyrri hluta þessa árs ekki verið nægilega góð.

Af þessum ástæðum taldi félagið þörf á að framkvæma í árslok 2014 virðisrýrunarpróf á fjórum af stærstu borum félagsins. Nirðurstaðan úr prófinu var að eðlilegt væri að færa virðisrýrnun að fjárhæð 704 milljónir króna og er hún færð til gjalda í rekstrarreikning.

Eignir félagsins námu tæplega 6,4 milljörðum króna í lok ársins og skuldir voru 3,6 milljarðar króna. Nam eigið fé fyrirtækisins 2,8 milljörðum króna í árslok.