Töluverður munur var á afkomu tryggingafélaganna á þriðja ársfjórðungi. TM hagnaðist um 1.422 milljónir króna á fjórðungnum, Sjóvá um 1.293 milljónir og VÍS um 570 milljónir. Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir að uppgjör tryggingafélaganna á þriðja ársfjórðungi hafi endurspeglað ágætlega hve sveiflukennd afkoman geti verið milli ársfjórðunga, bæði hvað varðar tryggingarekstur og fjárfestingarstarfsemi.

„Rekstrarniðurstaða allra tryggingafélaganna var góð á þriðja ársfjórðungi eins og við var að búast,“ segir Stefán Broddi. „Það kemur fyrst og fremst til út af mjög góðri ávöxtun fjárfestingareigna á fjórðungnum en um mitt ár voru samanlagðar fjárfestingareignir skráðu tryggingafélaganna um 92 milljarðar króna. Innlendur hlutabréfamarkaður hækkaði um í kringum 9% á fjórðungnum og innlendar skuldabréfavísitölur hækkuðu talsvert. Samtals skiluðu eignir tryggingafélaganna fjárfestingartekjum upp á 3,6 milljarða á fjórðungnum.“

Stefán Broddi segir að eignasöfn félaganna séu hins vegar nokkuð ólík, bæði hvað varðar vægi eignaflokka og ákveðinna eigna, og þess vegna hafi ávöxtun verið mismunandi eftir félögum. „Það kom fyrst og fremst fram í tilviki VÍS þar sem fjárfestingartekjur voru talsvert undir væntingum markaðarins. Þar virðist koma til dæmis af því að því stærsta einstaka eignin, HFF 24, lækkaði í verði, áhrif erlendra eigna voru neikvæð og hlutabréfaeign skilaði lægri ávöxtun en þróun innlends hlutabréfamarkaðar gaf til kynna.“

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .