Heildarhagnaður skráðra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar jókst um 33% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður félaganna 19 nam tæplega 21 milljarði króna og jókst um 5,2 milljarða á milli ára. Heildarhagnaður skráðra félaga hefur farið lækkandi á síðustu árum en á síðasta ári dróst hann saman um 36% og hafði þá lækkað um 61% frá metárinu 2015 þrátt fyrir að skráðum félögum hafi fjölgað þó vissulega muni um afskráningu Össurar árið 2017. Hagnaður þrettán félaga jókst á milli ára og varð aukningin mest hjá Sjóvá eða upp á tæplega 2,5 milljarða króna á meðan afkoma Icelandair versnaði hins vegar mest á milli ára eða um rúmlega 4,6 milljarða.

Þrátt fyrir að hagnaður félaganna hafi aukist töluvert á fyrri helmingi ársins stendur annar ársfjórðungur ársins alfarið undir þeirri hækkun þar sem hagnaður félaganna á fyrsta ársfjórðungi ársins dróst saman um rúmlega 3,2 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Samanlagður hagnaður á fjórðungnum nam 13,8 milljörðum króna og jókst um rúmlega 8,4 milljarða á milli ára eða 157%.

Tryggingafélögin standa upp úr

„Þegar horft er eingöngu til breytingar á hagnaði félaga á milli ára þá er afkomubati tryggingafélaganna mest áberandi,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Tryggingafélögin þrjú, VÍS, TM og Sjóvá, högnuðust um rúmlega 5,7 milljarða króna á fyrri hluta ársins sem er sjöfalt betri afkoma en á sama tíma í fyrra. Þá nam hagnaður þeirra á öðrum ársfjórðungi rúmlega 4,1 milljarði sem er viðsnúningur upp á 5,2 milljarða frá fyrra ári.

„Viðsnúningurinn skýrist að langstærstu leyti af hækkun á virði fjárfestingareigna. Ávöxtun á innlendum verðbréfamarkaði var mjög góð á fyrri árshelmingi, eða um 10- 15% og fjárfestingareignir félaganna eru samtals um 100 ma.kr. Slík ávöxtun er auðvitað mjög óvenjuleg en hún fylgir lækkun ávöxtunarkröfu á markaði. Lægri vextir þýða um leið að það verður meiri áskorun fyrir tryggingafélögin að ávaxta eignasöfn í framtíðinni. Það endurspeglast í spám félaganna fyrir næstu fjórðunga. Vissulega hefur átt sér stað bati í tryggingarekstrinum en ég verð þó að viðurkenna að heilt yfir hefði ég viljað sjá jákvæðari þróun í tjónum miðað við hvar við erum stödd í hagsveiflunni.“

Hagnaður fasteignafélaganna þriggja, Reita, Regins og Eikar, jókst um tæplega 2,8 milljarða króna á fyrri helmingi ársins og nam rúmlega 5,5 milljörðum á tímabilinu. Munar þar mestu um bætta afkomu Reita en hagnaður félagsins nam rúmlega 1,9 milljörðum og jókst um 1,6 milljarða miðað við sama tímabil í fyrra. Þrátt fyrir aukinn hagnað félaganna það sem af er ári virðast þó vera blikur á lofti í rekstri þeirra enda hafa bæði Reitir og Reginn fært niður afkomuspár sínar fyrir árið í ár þótt mismunandi ástæður hafi legið þar að baki. „Að nokkru leyti gildir hið sama hjá fasteignafélögunum,“ segir Stefán. „Aukinn hagnaður skýrist nær eingöngu af matsbreytingu á eignasafni, sem aftur er afleiðing þess að vextir á markaði hafa lækkað töluvert. Undirliggjandi rekstur tók ekki miklum breytingum enda yfirleitt frekar stöðugur en þau fara þó, ekki frekar en önnur fyrirtæki, varhluta af erfiðara árferði í atvinnurekstri.“

Afkoman litast af breytingum

Í rekstri olíu- og smásölufyrirtækjanna Haga, Festi og Skeljungs dróst hagnaður þeirra saman um 9% milli ára og nam rúmlega 2,5 milljörðum króna þrátt fyrir að samanlagðar tekjur Haga og Festi hafi aukist um 67% milli ára vegna kaupa Haga á Olís annars vegar auk kaupa N1 á Festi. Hagnaður Haga fyrir tímabilið frá 1. desember til 31. maí nam 1,2 milljörðum og hækkaði lítillega milli ára á meðan hagnaður Festi nam 601 milljón á fyrri helmingi ársins og dróst saman um 20% auk þess sem hagnaður Skeljungs nam 707 milljónum á tímabilinu og dróst saman um 17% milli ára. „Í tilfelli þessara félaga held ég að megi segja að þau virðast eiga fullt í fangi við að viðhalda framlegð af rekstri, í kjölfar ýmissa kostnaðarhækkana. Þessi geiri í Kauphöllinni stækkaði auðvitað mikið með sameiningum í fyrra og afkoman litast ennþá af þeim breytingum,“ segir Stefán.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .