Hagnaður bandaríska bankans JP Morgan Chase nam 5,3 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi eða sem nam tæpum 590 milljörðum íslenskra króna. Þetta var 19% samdráttur á milli ára og var ekki í takti við væntingar markaðsaðila.

Þetta  jafngildir því að hagnaður hafi numið 1,28 dölum á hlut nú borið saman við 1,59 dali á hlut á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Markaðsaðilar bjuggust hins vegar við 1,38 dala hagnaði á hlut.

Fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times um málið að fyrsti ársfjórðungur bankans sé iðulega mun betri en raunin varð nú. Rifjað er upp að stjórnendur JP Morgan Chase hafi í afkomuviðvörun búist við lélegu uppgjöri. Það var hins vegar reiknað með ögn betri niðurstöðu en raunin varð eða 15% samdrætti á milli ára í stað 19.

Blaðið hefur hins vegar eftir Jamie Dimon, bankastjória JP Morgan Chase, að á heildina litið sé niðurstaðan ekkert svo slæm.