JP Morgan Chase & Co, annar stærsti banki Bandaríkjanna, hagnaðist um 5,56 milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi 2011. Hagnaðurinn er 67% hærri en á fyrsta ársfjórðungi 2010. Í frétt Reuters um málið segir að aukinn hagnað megi rekja til þess að minni fjármunir voru lagðir til hliðar til þess að bregðast við slæmum útlánum.

Hagnaður á hlut nam 1,28 dollurum samanborið við 74 cent á hlut í fyrra. Bankinn lagði til hliðar 1,17 milljarða dala vegna útlána sem þykja að öllum líkindum töpuð. Upphæðin nam 7,01 milljarði dala á sama tíma í fyrra.

Hagnaður af fjármálastarfsemi bankans dróst saman og nam 2,37 milljörðum dala, samanborið við 2,47 milljarða í fyrra. Hlutabréfaverð í JP Morgan hefur breyst lítið fyrir opnun markaða í dag, að því er kemur fram í frétt Reuters.