Kauphöll Íslands hf., sem starfrækir kauphöll Nasdaq á Íslandi, hagnaðist um 141,5 milljónir króna árið 2021, sem er um helmingi meira en árið áður þegar hagnaðurinn nam 95,2 milljónum. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 141 milljón vegna síðasta rekstrarárs.

Tekjur Kauphallarinnar námu 683 milljónum á síðasta ári sem er 11,9% aukning frá fyrra ári. Tekjuvöxtinn má rekja til hækkun á virði hlutabréfamarkaðarins og aukinni veltu á markaðnum. Viðskiptagjöld vógu um 42,1% af tekjum félagsins og útgefendagjöld 36,7%. Meðalfjöldi starfsgilda var 14 og laun og launatengd gjöld námu um 320 milljónum.

Eignir Kauphallarinnar námu tæplega 865 milljónum í lok síðasta árs og eigið fé var um 472 milljónir. Kauphöllin er dótturfélag Nasdaq Nordic í Finnlandi.

Engin félög frestað skráningaráformum

Í skýrslu stjórnar Kauphallarinnar er bent á að heildarvirði íslenska hlutabréfamarkaðarins hafi hækkað um 40,2% á árinu 2021, bæði vegna nýrra skráðra félaga og vegna hækkunar á markaðsvirði skráðra félaga. Á sama tíma hafi heildarvirði skráðra skuldabréfa einungis hækkað um 6%. Velta á hlutabréfamarkaði óx um 78% frá fyrra ári en velta á skuldabréfamarkaði dróst saman um 34% milli ára.

Í ársreikningnum segir að áhrif til skamms tíma af stríðinu í Úkraínu séu óveruleg en hins vegar hafi það valdið verulegum sveiflum á markaði. Dragist stríðið á langinn er líklegt að áfram verði sveiflur á mörkuðum og þrýstingur á hlutabréfaverð sem gæti haft í för með sér að fyrirtæki fresti fyrirætlunum um skráningu hlutabréfa á markað sem myndi draga úr umfangi viðskipta á næstu misserum.

Sjá einnig: Stefna áfram að skráningu

„Á undirritunardegi þessa ársreiknings [23. mars 2022] hafa þó engar tilkynningar borist frá félögum sem hyggja á skráningu á markað eða ráðgjöfum varðandi breytingar á þeim fyrirætlunum.“

Nasdaq CSD SE hagnast um 405 milljónir

Útibú Nasdaq CSD SE á Íslandi, sem hét áður Nasdaq verðbréfamiðstöð, skilaði 405 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 312 milljónir árið áður. Rekstrartekjur jukust um 23% á milli ára og námu 986 milljónum króna. Starfsgildi voru sex að meðaltali á síðasta ári en laun og launatengd gjöld námu 142 milljónum.

Í árslok nam heildarvirði verðbréfa í vörslu Nasdaq CSD á Íslandi 5.427 milljörðum króna, sem er 19% hækkun frá fyrra ári.

Nasdaq CSD SE veitir markaðsaðilum og útgefendum verðbréfa á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum margháttaða þjónustu tengdum verðbréfum og sér þeim fyrir innviðum fyrir uppgjör og umsýslu verðbréfa. Kjarnastarfsemi Nasdaq CSD er þjónusta við útgáfu og varsla verðbréfa, uppgjör verðbréfa og peninga og umsjón, viðhald og rekstur skráningakerfis. Nasdaq verðbréfamiðstöð sameinaðist formlega Nasdaq CSD SE um mitt ár 2020 .