*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 10. apríl 2017 08:53

Hagnaður KS um 1,4 milljarðar

Kaupfélag Skagfirðinga hagnaðist um 1.367 milljónir á síðasta ári en tekjur félagsins voru 31,2 milljarðar.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Hagnaður af rekstri Kaupfélags Skagfirðinga nam 1.367 milljónum króna á síðasta ári. Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri sagði á aðalfundi félagsins á Sauðárkróki um helgina að reksturinn hefði verið í grunninn sambærilegur og árið á undan að því er fram kemur í frétt Feykis.

Heildartekjur Kaupfélagsins voru 31,2 milljarðar sem er lítils háttar lækkun frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 4,2 milljarðar og er það sama tala og 2015 og einnig 2014. 

20 milljarða hagnaður á fimm árum

Rekstrarhagnaður síðustu fimm ára er því rúmlega 20 milljarðar fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Laun og launatengd gjöld voru 7,5 milljarðar á seinasta ári sem er hækkun um hálfan milljarð frá árinu á undan.

Helstu rekstrareiningar Kaupfélagsins eru mjólkurafurðastöð, kjötafurðastöð, bifreiðaverkstæði, vélaverkstæði, dagvöruverslun og byggingavöruverslun sem er einnig rekstrarvöruverslun fyrir bændur.

1.424 félagsmenn í kaupfélaginu

Dótturfélög KS eru fjölmörg en þeirra stærst eru Fisk Seafood og Fóðurblandan sem aftur eru eigendur að fjölmörgum rekstrarfélögum. Þá eru eignarhlutir einnig fjölmargir í hinum ýmsu hlutdeildarfélögum.

Hagnaður af rekstri samstæðunnar á árinu 2016 nam 1.367 milljónum króna. Eigið fé, ásamt hlutdeild minnihluta, í lok árs 2016 nam 27.761 milljónum kr. og í árslok áttu 1.424 félagsmenn innistæður í stofnsjóði sem námu 165,6 milljónum króna.