Hagnaður Kviku banka fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi er áætlaður á bilinu 450-500 milljónir króna, samkvæmt drögum að uppgjöri. Kvika hafði áætlað um miðjan maí síðastliðinn að hagnaðurinn yrði á bilinu 2,15-2,4 milljarðar. Hagnaðurinn var því 1,8 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Munur á afkomu samstæðunnar og áætlun skýrist af lægri fjárfestingatekjum en gert var ráð fyrir, enda voru aðstæður á verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum með allra versta móti,“ segir í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.

Hreinar fjárfestingatekjur Kviku, móðurfélags TM, voru neikvæðar um 0,9 milljarða króna en gert hafi verið ráð fyrir að þær yrðu jákvæðar um einn milljarð á tímabilinu. Fjárfestingatekjur voru því 1,9 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir.

Kvika segir þó að grunnrekstur samstæðunnar hafi verið sterkur á tímabilinu. Hreinar vaxtatekjur námu 1,9 milljörðum, hreinar þóknanatekjur 1,6 milljörðum, hrein iðgjöld og tjón 1 milljarði og rekstrarkostnaður var 3,2 milljarðar „sem var í samræmi við áætlanir“.

Kvika áréttar að uppgjörið sé enn í vinnslu og geti því tekið breytingum fram að birtingardegi þann 18. ágúst næstkomandi. Samhliða því verður uppfærð afkomuspá fyrir næstu fjóra fjórðunga birt.