*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 17. febrúar 2021 18:27

Hagnaður Kviku dróst saman um 15%

Hagnaður Kviku banka nam 2,3 milljörðum króna árið 2020 og dróst saman um 14,6% frá fyrra ári.

Ritstjórn
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.
Aðsend mynd

Hagnaður Kviku banka nam 2,3 milljörðum króna árið 2020 og dróst saman um 14,6% frá fyrra ári. Hreinar vaxtatekjur námu 1,8 milljöðrum, hreinar þóknanatekjur jukust um 24% og námu 6 milljörðum og fjárfestingartekjur námu 833 milljónum. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.

Hrein virðisbreyting var neikvæð um 317 milljónir. Heildareignir námu 123,2 milljörðum í lok árs, eigið fé nam 19,2 milljörðum og var arðsemi eigin fjár nam 14,2%. 

Áætlanir Kviku gera ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði á bilinu 2.600 - 3.000 milljónir króna á þessu ári. Afkoma bankans geti þó vikið frá áætlun, meðal annars vegna markaðsaðstæðna og annarra ófyrirséða atburða.

Stefnt sé að samruna við TM hf. og Lykil fjármögnun hf. sem áætlað er að verði fyrir lok fyrsta ársfjórðungs. „Þar sem eftirlitsaðilar og hlutahafafundir félaganna hafa ekki samþykkt samrunann þá gerir áætlunin ekki ráð fyrir honum. Ef af samruna verður munu forsendur áætlunar breytast verulega. Eftir samruna verður birt ný áætlun sameinaðs félags,“ segir í tilkynningunni.

„Árið 2020 fól í sér margar áskoranir fyrir fólk og fyrirtæki. Ég er stoltur af samstarfsfólki mínu sem hefur staðið sig einstaklega vel í að takast á við þessar áskoranir. Niðurstaðan kemur fram í rekstri bankans sem gekk vonum framar á síðasta ári.

Á undanförnum árum hefur Kvika breyst úr því að vera lítill banki í að verða öflugt fjármálafyrirtæki. Reksturinn gengur vel og fjárhagsstaða bankans er sterk. Félagið stendur nú á tímamótum því fyrirhuguð er sameining við TM hf. og Lykil fjármögnun hf. Sameinað félag verður eitt öflugasta félag landsins sem hefur allar forsendur til að ná árangri með aukinni samkeppni og nýjungum fyrir viðskiptavini. Það eru spennandi tímar framundan," er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku banka, í tilkynningunni.

Stikkorð: uppgjör Kvika banki