Kvika banki hagnaðist um 1,5 milljarða á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við 870 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Samstæðan gerir ráð fyrir 8,7-9,7 milljarða króna hagnaði fyrir skatta yfir næstu fjóra fjórðunga sem svarar til 19,9% - 22,2% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Afkoman er í fullu samræmi við áætlanir, að því er kemur fram í nýútgefnu ársfjórðungsuppgjöri félagsins.

Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum jukust um 148% á milli ára, úr 633 milljónum í fyrra upp í 1,6 milljarða á þessu ári. Hreinar þóknanatekjur stóðu nánast í stað á milli ára og námu 1,6 milljörðum.

Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna í lok tímabilsins samanborið við 78 milljarða króna í lok 2021. Í gær fékk Kvika í fyrsta sinn lánshæfismatseinkunn frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Moody’s sem gaf félaginu einkunnina Baa2/Prime-2 í fjárfestingaflokki með stöðugum horfum.

Heildareignir jukust um 16% eða 40 milljarða króna fyrstu þrjá mánuði ársins og námu 286 milljörðum króna í lok mars. Útlán til viðskiptavina jukust um rúma 11 milljarða á tímabilinu og námu 83 milljörðum í lok mars, sú aukning er að mestu leyti komin til vegna kaupa á breska fasteinalánafélaginu Ortus Secured Finance Ltd.

Samþykkt var á aðalfund félagsins í mars að ráðast í endurkaup fyrir að hámarki þrjá milljarða króna, en það bíður samþykkis eftirlitsaðila.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Ég er ánægður með fjórðunginn. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst í því að fjölga og efla tekjustoðir félagsins. Markaðsaðstæður eru meira krefjandi en áður og því er sérstaklega ánægjulegt að sjá í uppgjörinu að sú stefna er að bera ávöxt og afkoma félagsins sé í samræmi við útgefna afkomuspá. Jafnframt er ánægjulegt að ný afkomuspá gerir ráð fyrir áframhaldandi bata í afkomu.”