Kvika banki hagnaðir um 336 milljónir króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi. Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 8,8%. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans fyrir fyrsta ársfjórðung.

Í tilkynningunni segir að afkoman sé lítillega yfir áætlun tímabilsins. Hagnaður fyrir skatta var ríflega 445 milljónir króna. Á sama tímabili í fyrra var hagnaður fyrir skatta ríflega 851 milljón króna en eftir skatta tæplega 709 milljónir króna. Um ríflega helmingun á hagnaði er því að ræða.

Hreinar vaxtatekjur námu 483 milljónum króna og hækkuðu um 14% frá fyrsta fjórðungi ársins 2019. Hreinar þóknanatekjur námu 1.664 milljónum króna. Fjárfestingatekjur voru á móti neikvæðar um 157 milljónir króna og virðisbreyting útlána sömuleiðis um álíka upphæð.

„Við birtingu á bráðabirgðatölum fyrir fyrsta ársfjórðung gaf bankinn út að forsendur fyrir þágildandi afkomuspá yrðu endurskoðaðar. Það er mat stjórnenda Kviku að forsendur hafi breyst hvað varðar stærð lánasafns, afskriftarþörf, markaðsaðstæður og stærð skiptasamningasafns. Að auki hafa vaxtalækkanir að undanförnu haft neikvæð áhrif á vaxtamun til skemmri tíma. Í ljósi þessa hefur afkomuspáin verið uppfærð og gerir endurskoðuð afkomuspá nú ráð fyrir að hagnaður ársins 2020 verði á bilinu 1.700 – 2.300 milljónir króna fyrir skatta. Í upphafi árs var afkomuspá bankans 2.300 – 2.700 milljónir króna fyrir skatta,“ segir í tilkynningu bankans.

Heildareignir Kviku námu 117 milljörðum króna og hafa aukist um rúmlega ellefu milljarða frá upphafi ársins. Útlán til viðskiptavina eru tæplega 31 milljarður króna. Lausafjárstaða bankans er sem stendur 48 milljarðar króna og lausafjárhlutfall 275%. Eigið fé nam 16 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 23,7%.

„Ársfjórðungurinn var viðburðaríkur. Árið fór mjög vel af stað áður en COVID-19 veiran gerði vart við sig. Miklar áskoranir fylgdu því að aðlaga starfsemi bankans að breyttum aðstæðum sem fólu meðal annars í sér fjarvinnu flestra starfsmanna. Ég er virkilega ánægður með hvernig starfsmönnum bankans tókst að fóta sig í breyttum aðstæðum,“ er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni forstjóra Kviku.

„Óvissan vegna veirunnar hefur valdið því að umsvif í hagkerfinu minnka og margir fresta því að taka ákvarðanir. Það leiðir til þess að tækifæri fara forgörðum og neikvæðar efnahagslegar afleiðingar vara lengur en ella. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að minnka óvissu. Veiran hefur mismikil áhrif á fyrirtæki og ræðst það meðal annars af fjárhagsstöðu þeirra og í hvaða atvinnugrein þau starfa. Mikilvægt er að byggja upp traust atvinnulíf og vinna með öflugum fyrirtækjum sem eru nauðsynleg til þess að geta veitt viðspyrnu og með því skapa störf og verðmæti. Bankinn er í góðri stöðu til þess að vinna áfram með fyrirtækjum og fjárfestum með það að markmiði að neikvæðar efnahagslegar afleiðingar veirunnar vari sem styst,“ segir Marinó.