*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 27. febrúar 2020 15:48

Hagnaður Kviku jókst um 52%

Þóknanatekjur Kviku Banka jukust um 30% á síðasta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Kviku banka nam 2.660 milljónum króna á síðasta ári og jóskt um 52% milli ára en arðsemi eiginfjár nam 21% á árinu sem er töluvert umfram langtímamarkmið bankans um 15% arðsemi. 

Vaxtatekjur bankans námu 1.776 milljónum króna og jukust um 4,4% milli ára á meðan þóknanatekjur námu 4,8 milljörðum og jukust um 30% milli ára en í tilkynningu vegna uppgjörsins segir að sá tekjuvöxtur hafi að mestu verið keyrður áfram að af eignastýringu. Þá námu fjárfestingatekjur 668 milljónum og jukust um 28% milli ára. 

Eignir bankans námu 105,6 milljörðum króna í lok ársins og jukust um 17,3 milljarða milli ára á meðan eigið fé í árslok nam 15,5 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var 24,1% í lok ársins sem er um 2,8 prósentustigum yfir eiginfjárkröfu FME. 

Fram kemur í tilkynningu vegna uppgjörsins að Kvika muni ekki greiða arð vegna rekstarársins 2020. Þá gerir bankinn ráð fyrir að hagnaður ársins 2020 fyrir skatta verði á bilinu 2,3-2,7 milljarðar. 

Í tilkynningunni er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku: 

„Rekstur Kviku gekk vel á árinu, mikill vöxtur var í þóknanatekjum og arðsemin var umfram langtímamarkmið. Ennfremur gekk vel að halda kostnaði á áætlun og skilaði bankinn sinni bestu afkomu frá upphafi.

Bankinn hefur skýra stefnu sem sérhæfður banki sem leggur áherslu á eignastýringu og fjárfestingastarfsemi. Á undanförnum árum hefur Kvika orðið til með kaupum og sameiningum á mörgum innlendum fjármálafyrirtækjum með það að markmiði að byggja upp fyrirtæki sem getur skilað árangri til lengri tíma. Það er ánægjulegt að grunnrekstur bankans hafi haldið áfram að batna sem endurspeglast í því að tekjur hafa verið að aukast en rekstarkostnaður verið í samræmi við áætlanir.

Aðstæður á fjármálamörkuðum eru krefjandi þessi misserin en Kvika er í góðri stöðu til þess að takast á við þær áskoranir sem fylgja nauðsynlegum breytingum á fjármálakerfinu meðal annars vegna nýrra tæknilausna og áframhaldandi hagræðingar. Það er áhyggjuefni hversu flókið rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja og annarra aðila á fjármálamarkaði er orðið. Fjármálakerfið er hluti af nauðsynlegum innviðum samfélagsins og það hefur ekki náð að þróast nægjanlega til að uppfylla hlutverk sitt.

Þrátt fyrir hátt sparnaðarstig á landinu hefur verið erfitt fyrir mörg fyrirtæki og frumkvöðla að afla fjármagns. Fjármagna þarf rekstur og fjárfestingar fyrirtækja til þess að viðhalda og auka verðmætasköpun sem er nauðsynleg forsenda lífskjara. Heilbrigður rekstur fyrirtækja er forsenda þess að þau ráði starfsmenn og greiði laun sem er forsenda fyrir því að hið opinbera fái skatttekjur, sem er forsenda fyrir því að hægt sé að halda uppi öflugri opinberri þjónustu. Uppbygging fjármálakerfisins kemur því öllum við og mikilvægt að það þróist í takt við þarfir hagkerfisins.“

Stikkorð: Kvika