Hagnaður Kviku banka nam 588 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi sem er um 157 milljónum lægra en á sama tímabili í fyrra, eða 21,2% samdráttur. Hagnaður á fyrri helmingi ársins nam 924 milljónum sem er 36,5% minna en á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Afkomuáætlun Kviku er óbreytt og gerir áfram ráð fyrir að hagnaður á árinu verði á bilinu 1.700 – 2.300 milljónir króna fyrir skatta, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Þóknanir bankans námu 3,1 milljarði á fyrri helmingi ársins en þar af komu rúmlega 1,4 milljarðar á öðrum ársfjórðungi. Þóknanir félagsins á öðrum ársfjórðungi jukust um 7,7% frá fyrra ári þegar þær voru tæplega 1,3 milljarðar. Aðrar tekjur Kviku námu 383 milljónum.

Vaxtatekjur bankans námu 895 milljónum á öðrum ársfjórðungi sem er um 448 milljónir minna en á sama tíma í fyrra. Vaxtakostnaður lækkaði þó um 412 milljónir milli ára og nam 923 milljónum. Hreinar vaxtatekjur námu því 384 milljónum en þær voru rúm 421 milljón á síðasta ári.

Rekstrarhagnaður Kviku var 2,1 milljarður á öðrum fjórðungi ársins samanborið við 1,9 milljarða á sama tímabili í fyrra. Rekstrarkostnaður nam 1,4 milljörðum á tímabilinu en starfsmenn í fullu starfi voru 145 í lok júní. Virðisrýrnun á eignum var metin á 52,4 milljónir á öðrum fjórðungi samanborið við 155 milljóna virðisrýrnun á fyrsta ársfjórðungi. EBIT hjá bankanum nam 570,6 milljónum samanborið við 738 milljónir í fyrra. Kostnaðarhlutfall bankans var 64,4% á fyrri helmingi ársins.

Í apríl var undirritaður samningur um sölu á öllum eignarhlut Kviku í Korta hf. til breska fjártæknifélagsins Rapyd . Núverandi mat bankans á endanlegu kaupverði fyrir eignarhlut bankans í Korta er að það verði í samræmi við bókfært virði hlutarins um s.l. áramót og muni því ekki hafa áhrif á afkomu bankans á þessu rekstrarári.

Heildareignir lækkuðu um ríflega fjóra milljarða frá lok mars og námu 113,1 milljarði í lok annars ársfjórðungs, eða 30. júní síðastliðinn. Útlán til viðskiptavina námu 30,3 milljörðum króna í lok júní og jukust um 0,2 milljarða króna á tímabilinu. Handbært fé og innstæður í Seðlabanka námu 26,9 milljörðum króna í lok júní en því til viðbótar námu ríkistryggð skuldabréf 24,5 milljörðum króna.

Skuldir félagsins lækkuðu einnig um 4,6 milljarða og voru 96,4 milljarðar um mitt ár. Eigið fé jókst um 656 milljónir og nam 16,7 milljörðum. Eigið fé nam 16,7 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 26,2% að teknu tilliti til 25% arðgreiðslustefnu

„Ég er stoltur af afkomu bankans á fyrri hluta ársins. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að breikka tekjugrunninn og það er því ánægjulegt að sjá að bankinn er að skila góðri rekstrarniðurstöðu í krefjandi umhverfi,“ er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku.

„Það er mikil óvissa í íslensku efnahagslífi en Kvika er í góðri stöðu til þess að vinna með núverandi og nýjum viðskiptavinum. Töluvert uppbyggingarstarf er framundan í íslensku atvinnulífi en vaxtastig hefur lækkað mikið og er líklegt að áhrif þess á verðmæti eigna hafi ekki komið fram að fullu.“